Skipulags- og samgönguráð samþykkti einróma á fundi sínum í dag að fela nafnanefnd að gera tillögu að götu eða torgi sem kennd væru við Úkraínu eða Kænugarð.
Í tillögu Sjálfstæðisflokksins sagði meðal annars: „Tengsl Íslands og Kænugarðs ná yfir þúsund ár eins og lesa má um í fornum ritum. Enn þann dag í dag eru talsverð viðskipti og menningarleg tengsl milli Íslands og Úkraínu. Í dag er hart sótt að Úkraínu og höfuðborg hennar. Það er því við hæfi að minnast Kænugarðs að fornu og nýju með því að nefna götu í Reykjavík Kænugarðsstræti.“
Ráðið sameinaðist um eftirfarandi breytingatillögu: „Nafnanefnd er falið að gera tillögu að götu eða torgi í Reykjavík sem kennd væru við Úkraínu eða Kænugarð. Nefndinni er falið að koma með tillögur að mögulegum staðsetningum og nöfnum og skila þeim til skipulags- og samgönguráðs.“
Í upphaflegu tillögunni var stungið uppá að að fela nafnanefnd að breyta nafni Garðastrætis í Kænugarðsstræti eða finna annan viðeigandi stað eftir atvikum.