Þær eru nokkrar hetjurnar sem flugu fram eftir síðustu hverfakosningu en alls var stungið upp á þrettán nýjum ærslabelgjum í íbúakosningunni Hverfið mitt. Ærslabelgirnir eru nærri allir komnir á sinn stað og tengdir við rafmagn og eru búnir að skemmta ófáum krökkum í hverfinu að undanförnu.
Ærslabelgir við Ægissíðu, Réttarholtsskóla, í Laugardal, á Kjalarnesi, í botni Grafarvogs, við Sæmundarskóla, í Árbæjarhverfi við Ystabæ, í Norðlingaholti og í efra og neðra Breiðholti eru allir komnir á sinn stað og eru líka tengdir við rafmagn. Nú síðast bættust við belgirnir í Bryggjuhverfi og Fossvogi. Framkvæmdum við ærslabelginn við Ölduselsskóla er lokið en hann bíður tengingar við rafmagn en það gerist á allra næstu dögum. Hann ætti því að verða hoppuklár í næstu viku.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við ærslabelginn í Árbæ sem hefur gert marga krakka hoppandi glaða síðustu vikur og er orðinn mikill samkomustaður krakka í hverfinu.
Hugmyndasöfnun stendur yfir
Nú stendur yfir hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt en hægt er að senda inn hugmyndir til og með 27. október. Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt, senda inn hugmyndir á hverfidmitt.is og líka við sínar uppáhaldshugmyndir. Hver verður Hetjan úr hverfinu?