Hælaskór, álfaskór og best geymda leyndarmálið

Mannlíf Skóli og frístund

Alda María, Vala (kennari), Esja Vár, Daníel (kennari), Davíð, Baldur Hrafn og Karlotta Kara.

Þorrablót eru árleg hefð í flestum leikskólum. Á Kvistaborg er lagður mikill metnaður í viðburðinn sem var haldinn með pompi og prakt, þegar starfsemin var nýflutt aftur í húsakynni leikskólans í Fossvogi.

„Vitið þið hvað þetta er?“ spyr Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjóri í Kvistaborg. Hún heldur á lofti sauðskinnsskó fyrir börnin sem hafa safnast saman á sal, skreytt þorrakórónum og í hátíðarskapi.

„Hælaskór!“ kallar eitt barnanna.

„Álfaskór!“ kallar annað.

„Nei, ég veit. Plastskór í gamla daga!“ kallar það þriðja hátt og skýrt. 

Dagurinn hefur þó augljóslega verið vel undirbúinn og börnin syngja af krafti hvert lagið á fætur öðru og skilja vel inntak textanna þótt það geti verið erfitt að átta sig á norðurstranda stuðlabergi og álfadrottningu sem er að beisla gandinn. Þau þekkja strax muni á borð við rokk, ask og skotthúfu en erfiðara er að bera kennsl á snældu og upphlut.

„Hvenær fáum við þorramatinn,“ spyr einn, augljóslega sannur víkingur og börnin trítla inn á deildir til að gæða sér á þjóðlegum veitingum. 

„Við setjum metnað í þetta og leggjum reyndar mikið í uppákomur almennt,“ segir Guðrún. Aðrir starfsmenn taka undir og benda á að þegar nokkur börn hafi verið heima með Covid-19 á jólaballinu, hafi Guðrún fengið jólasveininn með sér í bíltúr til að færa börnunum gjafir. 

Í nýju húsnæði leikskólans hefur þorramatnum verið stillt upp á dúkað borð og á stórum diski liggja sviðakjammar. „Vá, eins og höfuð af risaeðlu!“ lýsir eitt barnanna yfir og þótt þeim virðist líka maturinn vel leggja fæst í kjammana. 

Fallegt umhverfi og mikið frelsi

Málefni Kvistaborgar hafa verið í umræðunni vegna uppfærslu á húsnæði leikskólans og rakaskemmda sem þar komu upp. Í haust var starfsemin færð tímabundið í Safamýri 5 en nú er starfsemin komin aftur í Fossvogsdalinn.

„Það var margt gott við húsnæðið í Safamýri,“ segir Guðrún Þorleifsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri og nafna hennar tekur undir. „Já, þar fór vel um okkur en það ríkti mikil eftirvænting gagnvart því að snúa aftur í dalinn. Staðsetning Kvistaborgar er best geymda leyndarmálið í Reykjavík. Það er hægt að fara alla leið á Árbæjarsafn án þess að fara yfir götu og í hina áttina alla leið í Nauthólsvík eða lengra. Við höfum fjöruna, ána og dalinn, Svartaskóg við skógræktina og opið svæði sem nýtist sem sleðabrekka. Þetta svæði er svo mikið gull. Við erum ofboðslega rík af fallegu umhverfi og höfum mikið frelsi.“

Notalegt að sjá fólkið streyma að

Mörg barnanna búa nálægt leikskólanum og hið sama á við um starfsfólkið og ganga margir eða hjóla í leikskólann. „Það er notalegt að sjá alla streyma að á morgnana og við fundum sterkt hvað foreldar voru ánægðir með flutningana til baka,“ segja þær. „Krakkarnir voru líka glaðir að komast aftur í garðinn því hér höfum við svo gott útisvæði. Fyrst eftir flutninga vantar ýmislegt og enn á eftir að koma ýmsu í verk en húsnæðið er hlýlegt og hér getum við komið okkur vel fyrir.“ 

Andinn í starfsmannahópnum virkar afar jákvæður. „Starfsfólkið okkar er einstakt, við bara verðum að fá að hrósa því,“ segja þær nöfnur ákveðið. „Þetta hefur verið álag en starfsfólkið sýndi frábæra hæfni í að takast á við þetta verkefni, að flytja og það í Covid-aðstæðum! Fólkið okkar á hrós og klapp skilið. Við höfum líka gert ýmislegt til að létta lundina og gætt þess að halda starfsmannahópnum upplýstum en um leið meðvituðum um að plön geti alltaf breyst.“ 

Börnin tóku þátt í flutningunum

Nokkrir starfsmenn hófu störf í flutningum eða á meðan starfsemin var í Safamýri og kynnast fyrst núna hefðbundnu leikskólastarfi í Fossvoginum. Þeir bætast í spjallið og segjast meðal annars sjá mikla ánægju barnanna með að komast aftur í leikaðstöðuna utandyra. Þá hrósa þau öll mötuneyti leikskólans og kokkinum, henni Marziu, í hástert. 

„Við fundum að börnunum leið vel í Safamýri þótt mikið væri að gera hjá okkur en við fengum þau líka með í flutningana,“ segir Guðrún leikskólastjóri og nafna hennar bætir við. „Við fluttum inn með eins lítið og hægt var og svo tóku börnin bara þátt. Þau fengu að sjá að ekki var allt fullkomið og voru með í ferlinu.“

Sólveig María Guðrúnar-Sölvadóttir er einn nýju starfsmannanna og hún segir svo skemmtilegt hvað börnunum þyki gaman að hjálpa til. „Ef maður er að þrífa eru þau mætt með tuskur og kústa og þegar við áttum ekki meira eftir til að bera inn í flutningunum fundum við einn kubb fyrir þau til að bera í senn, þau vildu bara vera að vinna,“ segir hún hlæjandi. 

50 ára afmæli fagnað í hverjum mánuði

Leikskólastýrurnar segja framtíðina bjarta. „Við vitum að við stöndum frammi fyrir meiri framkvæmdum en erum spennt fyrir því sem koma skal, þetta verður alltaf betra og betra. Við erum með fína verkferla og það er komin ákveðin reynsla og jafnaðargeð, sem er mjög mikilvægt,“ segja þær. „Svo þarf að huga að starfsfólkinu. Við héldum til dæmis ekki jólagleði vegna vaxandi Covid en eigum inni að gera okkur glaðan dag og ætlum líka í námsferð. Svo á Kvistaborg 50 ára afmæli á árinu og við ætlum að gera eitthvað skemmtilegt í hverjum mánuði fyrir börnin og okkur starfsfólkið.“