Göngu- og hjólastígaframkvæmdir 2023

Hjólaborgin

Nýr hjólastígur í Elliðaárdal sem var opnaður síðasta sumar. Næst verður ráðist í þriðja áfangann, frá Grænugróf að Dimmu.
Hjólandi maður á stíg í Elliðaárdal.

Ný verkefni í göngu- og hjólastígagerð fyrir næsta ár voru kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær. Heildarlengd stíganna er tæpir 4,3 kílómetrar og er áætlaður kostnaður við þá um 1.080 milljónir króna. Undirbúningur stíganna er kominn mislangt á leið en stefnt er að því að framkvæmdir við þá flesta hefjist á árinu 2023.

Hluti greiddur af samgöngusáttmálanum

Gert er ráð fyrir að hluti verkefnanna verði greiddur af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í samræmi við samkomulag þar um en önnur verkefni af viðkomandi liðum fjárfestingaráætlunar, svo sem hjólreiðaáætlun og gerð stíga í eldri hverfum.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundi sínum að heimila áframhaldandi undirbúning, verkhönnun og gerð útboðsgagna fyrir eftirtaldar stígaframkvæmdir. 

Ný verkefni

  • Gufunes
  • Kringlumýrarbraut/Borgartún - gatnamót
  • Vegmúli
  • Suðurhlíðar við Kringlumýrarbraut
  • Höfðabakki. Hamrastekkur að Höfðabakkabrú og Rafstöðvarvegur – Bæjarháls.
  • Elliðaárdalur 3. áfangi, Grænagróf – Dimma, stígagerð og brú.

Áður kynntar stígaframkvæmdir

Á árinu er einnig gert ráð fyrir að halda vinnu áfram við eða ljúka áður kynntum framkvæmdum:

  • Sörlaskjól / Faxaskjól.
  • Krókháls / Dragháls, frá Höfðabakka að Suðurlandsvegi
  • Elliðaárdalur – Stígur í stað hitaveitustokks.
  • Rofabær, borgargata.
  • Hálsabraut.
  • Skógarhlíð, frá Litluhlíð að Miklubraut.
  • Réttarholt, Réttarholtsvegur að Sogavegi.
  • Háaleitisbraut – Bústaðavegur, gatnamót.
  • Arnarnesvegur – stígtengingar við samgöngusáttmálastígana
  • Elliðaárdalur – Dimma brú.
  • Kjalarnes, Hringvegur (1), Varmhólar – Vallá.
  • Arnarnesvegur / Breiðholtsbraut, stígur og brú.

Hjólaborgin Reykjavík 

Aukin hlutdeild hjólreiða mun hafa góð áhrif á samgöngur, umhverfi, lýðheilsu, lífið í borginni og skapa betri borg. Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 var samþykkt vorið 2021. Markmið áætlunarinnar er að auka hlutdeild hjólreiða í ferðum í borginni en stefnt er að því að að minnsta kosti 10% allra ferða í borginni verði farnar á hjóli árið 2025.