Góð vetrardekk eru betra val en nagladekk í Reykjavík

Samgöngur Umhverfi

Nagladekk22

Ekki er leyfilegt að vera með nagladekk undir bílum nema á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl. Hlutfall milli nagladekkja og annarra dekkja var þó kannað miðvikudaginn 19. október. Hlutfallið skiptist þannig að 14,7% ökutækja var á negldum dekkjum og 85,3% var á öðrum dekkjum. Talning á þessu hlutfalli hefur ekki verið gerð í október síðan veturinn 2001 og var hlutfallið þá 3%.

Það er áhyggjuefni að svo hátt hlutfall bifreiða skuli þegar vera kominn á nagladekk. Ástæðan gæti mögulega verið sú að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur árlega gefið út tilkynningar um að ekki sé sektað þótt nagladekk séu komin undir fyrir leyfilegan tíma. Það getur virkað sem hvatning til þess að setja nagladekk undir bílinn þrátt fyrir að götur séu auðar og aðstæður með besta móti. Það veldur svifryki, hávaða- og loftgæðamengun.

Nagladekk skapa falskt öryggi bílstjóra

Góð vetrardekk eru betra val en nagladekk í Reykjavík og mikilvægast er að keyra varlega eftir aðstæðum hverju sinni. Nagladekk geta skapað falskt öruggi fyrir ökumenn sem hafa þá tilhneigingu til að keyra harðar en ella.

„Að fækka nöglum myndi bæta lífsgæði borgarbúa á margan hátt,“ segir Svava S. Steinarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. „Nagladekk auka ekki aðeins á svifryksmengun heldur orsaka þau aukinn hávaða frá umferð. Það er því mikill ávinningur fyrir lýðheilsumarkmiðin að draga úr notkun þeirra,“ segir hún en í lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar stendur meðal annars: „Með bættum loftgæðum er dregið úr langvinnum sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar,“ en Reykjavík er skipulögð með heilsu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Nagladekk óæskileg út frá lýðheilsusjónarmiðum

Talið er að bíll á nöglum mengi allt að 40 sinnum meira en bíll sem ekki er á nöglum. Það er ekki bannað að nota nagladekk frá 1. nóvember til 15. apríl árlega en það er óæskilegt meðal annars út frá lýðheilsusjónarmiðum, leikskólum og allra sem vilja bæta loftgæðin í borginni með vistvænum samgönguháttum.

Upplýsingar um áhrif nagladekkja á umhverfið