Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út ýmsar framkvæmdir í nýbyggingahverfum fyrir 1,1 milljarð króna á þessu ári. Um er að ræða verkefni í Úlfarsárdal, Reynisvatnsási, Norðlingaholti, Sléttuvegi, Brekknaás og Esjumelum. Framkvæmdatímabil er áætlað frá maí fram í nóvember.
Um er að ræða gatnagerð og ýmiss konar yfirborðsfrágang eins og:
- Gatnagerð
- Gangstéttir
- Göngu og hjólastíga
- Torg og bílastæði
- Malbikun
- Jöfnun yfirborðs, gróðursetningu og ræktun
Úlfarsárdalur
Framkvæmdir eru m.a. gangstéttar, stígagerð og ræktun í takti við uppbyggingu íbúðabyggðar. Við Úlfarsbraut, við Dalskóla og bókasafn verður lokafrágangur við stoðveggi, setpalla og gróðursetningu. Áætlað er að þessar framkvæmdir kosti 200 milljónir króna.
Reynisvatnsás
Framkvæmdir við gerð gangstétta og stíga. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 20 milljónir króna.
Norðlingaholt
Færsla á rampa frá Breiðholtsbraut, frágangur á hljóðmönum, gerð göngu og hjólastígs og steypt stétt við Elliðabraut. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 100 milljónir króna.
Sléttuvegur
Framkvæmdir eru við gerð gönguleiða og frágang í hverfinu. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 30 milljónir króna.
Brekknaás
Framkvæmdir við gatna- og stígagerð á þéttingareit sem afmarkast af Brekknaás, Selásbraut og Vindás. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 100 milljónir króna.
Esjumelar
Gatnagerð vegna nýrra atvinnulóða. Áætlað er að þessar framkvæmdir kosti 650 milljónir króna.