Fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf í Reykjavík- Staða og áskoranir

Skóli og frístund

Skólabörn sitjaí sal grunnskóla

Reykjavík er borg í stöðugri þróun og vexti. Borgarbúum af erlendum uppruna hefur fjölgað mjög, sem og Íslendingum sem hafa „snúið heim“ eftir að hafa búið langdvölum erlendis. Reykjavíkurborg fær því sífellt aukna ásýnd fjölmenningarlegs samfélags og þróa þarf skóla- og frístundastarf með það í huga. Fjallað er meðal annars um þetta í nýútkomnu minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stöðu fjölmenningarlegs skóla- og frístundastarfs í Reykjavík.

Bakgrunnur barna af erlendum uppruna er mjög misjafn og þarfir þeirra sömuleiðis. Fjöldi flóttabarna hefur aukist verulega á síðustu misserum, rétt eins og fjöldi tví-og fjöltyngdra barna, en tölur má finna í minnisblaðinu. 

Menntun barna sem fá stöðu flóttafólks er mikilvægur liður í árangursríkri, gagnkvæmri aðlögun barnafjölskyldna að samfélaginu og er undirstaða jöfnuðar. Mörg þeirra hafa misst mikið úr skólagöngu og eru að kljást við ýmsa erfiðleika. Staða barna sem búið hafa við óstöðugleika og eru með rofna skólagöngu er flókin og þurfa þau mikinn stuðning til að geta tekið þátt í almennu skólastarfi. Þá þarf að huga að stækkandi hópi barna og foreldra í hópi kvótaflóttafólks og flóttafólks sem hafa mjög takmarkaða skólagöngu og menntun. Þessi hópur hefur litlar forsendur til að taka þátt í almennu skólastarfi með jafnöldrum sínum án sérstakrar aðlögunar og stuðnings til að ná tökum á íslenskunni. Fjölmargar áskoranir eru fyrir þessi börn á leik- og grunnskólaaldri sem lúta að félagslegum, heilsufarslegum og námslegum þáttum. Einnig þarf að leggja áherslu á þátttöku barna í tómstunda- og félagsstarfi. 

Skortur á fjárhagslegum stuðningi frá ríkinu

Fjárhagslegur stuðningur ríkisins vegna tvítyngdra barna í Reykjavík er afar takmarkaður og einskorðast við börn sem eru í leit að alþjóðlegri vernd, sem hefur fjölgað mjög. Gera má ráð fyrir að mörg þessara barna fái stöðu flóttafólks á næstu mánuðum. Þá hefur flóttafólki, kvótaflóttafólki, fylgdarlausum börnum og ungmennum og fólki sem kemur á grundvelli fjölskyldusameiningar fjölgað mikið. Sama má segja um fjölda barna sem kemur í gegnum samræmda móttöku. Menntun þessara barna og sá sértæki stuðningur sem þau þurfa á að halda í aðlögun sinni er án fjárhagslegs stuðnings. 

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á landinu sem ekki fær úthlutað úr Jöfnunarsjóði vegna kennslu barna í íslensku2, en þar er átt við nemendur með annað móðurmál en íslensku. Í ár nemur upphæðin 170.000 krónum á hvern nemanda og var úthlutað til 3.600 nemenda á landinu, í öllum sveitarfélögum nema Reykjavík. Í Reykjavík falla um 3.200 nemendur undir ísl2. Með réttu og í ljósi jafnræðis barna ætti Reykjavíkurborg að fá 544 milljónir á árinu 2023 frá jöfnunarsjóði. 

Ýmsar áskoranir framundan

Í minnisblaðinu er fjallað um hvað Reykjavíkurborg hefur gert til að efla móttöku barna af erlendum uppruna undanfarin ár. Þá er fjallað um helstu áskoranir í nútíð og næstu framtíð, svo sem verulega fjölgun flóttabarna, þörf á fleiri skólaúrræðum, fjölgun barna með sérstakar þarfir og skort á fjármagni, húsnæði og fagfólki. 

Minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stöðu fjölmenningarlegs skóla- og frístundastarfs í Reykjavík.