Skólar og kennarar í Reykjavík hljóta fimm tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022. Það eru leikskólinn Rauðhóll, hæfileikakeppnin Skrekkur sem og þrír kennarar í leik- og grunnskólum borgarinnar.
Þrír kennarar í Reykjavík tilnefndir
Leikskólinn Rauðhóll er meðal þeirra fjögurra skóla sem tilnefndir eru fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Auk Rauðhóls hlutu leikskólinn Akrasel, Allegro – Suzuki tónlistarskóli og Tæknimenntaskóli Tækniskólans tilnefningar fyrir framúrskarandi skólastarf.
Í flokki framúrskarandi kennara eru þrír kennarar í Reykjavík tilnefndir af fimm, það eru þau Elísabet Ragnarsdóttir, leikskólanum Heiðarborg, Mikael Marinó Rivera kennari í Rimaskóla og Valdimar Helgason, kennari við Réttarholtsskóla. Einnig eru tilnefnd þau Ásta Kristjana Guðjónsdóttir, kennari við Reykholtsskóla í Bláskógarbyggð og Guðríður Sveinsdóttir kennari við Giljaskóla á Akureyri. Verðlaun eru veitt til kennara sem stuðlað þótt hafa stuðlað að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Þá hlýtur hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs, Skrekkur tilnefningu sem framúrskarandi þróunarverkefni. Þrjú önnur verkefni hlutu tilnefningu, það eru Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi og læsi leikskólabarna. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ýtrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu.
Í flokknum framúrskarandi iðn- og verkmenntun voru þrjú verkefni tilnefnd. Það eru Átaksverkefnið #kvennastarf sem Tækniskólinn stendur að í samstarfi við iðn- og verkmenntaskóla. Hársnyrtibraut Verkmenntaskólans á Akureyri og Málarabraut Byggingartækniskóla Tækniskólans.