Evrópsku kvikmyndaverðlaunin veitt í Hörpu
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru veitt í Reykjavík á laugardagskvöld. Verðlaunin eru þau þekktustu og virtustu í evrópskri kvikmyndagerð og var verðlaunaafhendingin í Hörpu í beinni útsendingu 24 löndum.
Um viðamikið samstarfsverkefni er að ræða milli íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.
Ilmur Kristjánsdóttir og Hugleikur Dagsson voru kynnar kvöldsins og en á meðal gestakynna voru Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri, Ingvar Sigurðsson, leikari, Halldóra Geirharðs leikkona. Þá fékk hljómsveitin Gus Gus alla til að standa upp og dansa, bæði heima og gestina í Eldborg.
Kvikmyndin Triangle of Sadness Sorgarþríhyrningurinn, hlaut fern verðlaun. Ruben Östlund fékk verðlaunin fyrir bestu leikstjórn og besta handrit. Besti karlleikari var Zlatko Buric fyrir leik sinn í kvikmyndinni. Og í lokin var Sorgarþríhyrningurinn valin besta kvikmynd Evrópu 2022 en það voru þáttastjórnendur Með okkar augum á RÚV sem afhentu verðlaunin.
Íslenska kvikmyndin Leynilögga í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar var tilnefnd sem besta gamanmynd ársins. Myndin El buen Patrón frá Spáni fékk verðlaunin.
Verðlaunahátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín og árin á milli í öðrum evrópskum borgum. Til stóð að halda hátíðina í Reykjavík árið 2020 en vegna Covid-19 varð ekki af hátíðahöldum hér fyrr en nú í ár. Hátt í eitt þúsund manns ferðuðust til landsins til að taka þátt í hátíðinni, þar á meðal margir heimsþekktir leikstjórar og leikarar og um eitt hundruð erlendir blaðamenn.
Fjölmargir Íslendingar lögðu hönd á plóg til þess að allt gengi upp og eiga hrós skilið fyrir einstaklega vel heppnaða framkvæmd. Unnsteinn Manuel var listrænn stjórnandi. Rauða dregilinn og aðkomuna í Hörpu hönnuðu og listamennirnir Tanja Levý, Sean O’Brien og Lilý Erla Adamsdóttir.