Dagur B. Eggertsson tekur við formennsku bandalags borgarstjóra OECD ríkja um hagvöxt fyrir alla
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er nýr formaður OECD Champion Mayors for Inclusive Growth Initiative eða formaður bandalags borgarstjóra OECD-ríkja um hagvöxt fyrir alla. Matthias Cormann framkvæmdastjóri OECD kynnti þetta formlega í gær.
Dagur tekur við formennsku af borgarstjóra Parísar, Anne Hidalgo, sem hefur leitt bandalagið síðastliðin 6 ár, eða frá stofnun þess. OECD vinnur samkvæmt stefnu um hagvöxt fyrir alla og bandalag borgarstjóra leggur áherslu á að auka samvinnu og efla stuðning við borgarstjórnir sem eru leiðandi öfl í samfélögum.
“Við hlökkum til að vinna með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og öðrum leiðtogum til að virkja kraft borga heims til að tryggja sjálfbæran og kraftmikinn vöxt án aðgreiningar,” sagði Cormann. Orðrétt sagði hann “We are delighted to have Mayor Eggertsson as the new Chair of the OECD Champion Mayors Initiative. We very much look forward to working with him and other local leaders to leverage the power of our cities to help secure more inclusive, sustainable and resilient growth.”
Dagur hefur unnið að borgarmálum og þróun í 20 ár og hefur mikla reynslu af því að vinna að jöfnuði og því að vera leiðandi í sveitarstjórnarmálum. Hann hefur verið valinn til að veita ráðinu formennsku til 2024.
Dagur B. Eggertsson sagði um valið “Ég þakka OECD fyrir að leggja áherslu á mikilvægi aðgerða sem stuðla að hagvexti borga án aðgreiningar. Að auka jöfnuð borgarbúa og byggja mannvænlegri, umhverfisvænni og heilsusamlegri borg er ein stærsta áskorun samtímans. Borgir glíma gjarnan við erfiðar áskoranir en þar verða einnig til góðar lausnir við flóknum vandamálum. Sem formaður, með hjálp bandalagsins, stefni ég að því að halda áfram að treysta aðferðir sem byggðar eru á viðurkenndum lausnum með áherslu á það mikilvæga hlutverk sem ákvarðanir sveitarstjórna hafa á lífsgæði og jöfnuð meðal borgara. Ég mun hvetja til samræðna og samvinnu um nýstárlegar lausnir við þeim áskorunum sem við okkur blasa í borgarsamfélaginu auk þess að eiga samtal og deila þekkingu sem tengist mikilvægum viðfangsefnum svo sem þróun stafrænnar þjónustu, grænum lausnum, loftslagsbreytingum, húsnæði á viðráðanlegu verði, lýðheilsu og forvörnum. Ég mun leggja mig fram um að með samstarfi borga náum við að hjálpast að við að byggja upp betri framtíð fyrir alla."
Fráfarandi formaður, Anne Hidalgo sendi Degi hlýjar kveðjur og óskaði honum til hamingju með nýja hlutverkið. “Sem formaður hef ég ekki einungis auðgað mina eigin borg heldur höfum við sem í ráðinu sitja vakið athygli á málstað okkar um hagvöxt borga án aðgreiningar á alþjóðlega vísu. Verki okkar er ekki lokið og ég hlakka til að taka áfram þátt í samstarfi borgarstjóra í að búa til betri heim með grænum og mannúðlegum hagvexti.” Orðrétt sagði hún; , “I warmly congratulate Mayor Eggertsson and offer my full support as he takes on this important role. Chairing this initiative not only enriched my own city’s inclusive growth agenda, but as part of the OECD’s unique international platform, we were able to raise the profile of our local actions not just nationally but globally. Our work is certainly not done, and I look forward to continuing to find and share ways we mayors can advance inclusive growth around the world.
Bandalag borgarstjóra um hagvöxt borga fyrir alla voru stofnuð árið 2016 innan samtaka OECD ríkjanna til að leggja áherslu á hlutverk leiðtoga/borgarstjóra í þróun borga. Samstarf borga hjálpar sveitarfélögum að greina vandann, leita lausna og takast á við ójöfnuð í samfélaginu. Horft er til allra þátta sem stuðla að vellíðan og lýðheilsu borgarbúa og með alþjóðlegri samvinnu er hægt að fara í ýmis átaksverkefni með stuðningi. Meðal þeirra sem hafa veitt verkefnum borga sem eru í bandalaginu stuðning eru Ford Foundation, Cities Alliance, ICLEI, Bloomberg Philanthropies, Lincoln Institute of Land Policy, UCLG og United Way Worldwide.