Borgarstjórn hefur samþykkt breytingar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar í samræmi við verðlagsbreytingar umfram forsendur fjárhagsáætlunar og áhrif þeirra á rekstur. Leiðréttingin nemur 4,5% og tekur gildi 1. september.
Reykjavíkurborg hefur lagt upp með að hækka ekki þjónustugjaldskrár umfram verðlagshækkanir þrátt fyrir umtalsverðar launahækkanir umfram verðlag á síðustu árum. Borgin hefur með þeim hætti mætt kostnaðarhækkunum með því að draga að hluta til úr kostnaðarhlutdeild þjónustuþega þegar kemur að gjaldskrám.
Gjaldskrár enn með þeim lægstu á landinu
Eftir leiðréttingu er Reykjavíkurborg enn með lægstu gjöld fyrir leikskóla og eru aðrar gjaldskrár einnig lágar í samanburði við önnur sveitarfélög.
Reykjavíkurborg hefur um árabil tryggt fjölskyldum í borginni og barnafólki hagstæðar gjaldskrár fyrir þjónustu sína og verið í fararbroddi meðal sveitarfélaga hvað það varðar. Það er stefna borgarinnar að vera áfram hagstæðasta borg fyrir fjölskyldufólk til að búa í með hliðsjón af gjaldskrám.
Leiðrétting vegna áfallinnar verðbólgu
Gjaldskrár Reykjavíkurborgar tóku mið af forsendum fjárhagsáætlunar um hækkun verðlags árið 2022. Verðbólga hefur hins vegar aukist talsvert umfram forsendur fjárhagsáætlunar og mældist 9,7% í ágúst.
Það er mat fjármála- og áhættustýringarsviðs að til þess að viðhalda kaupmætti gjaldskráa og kostnaðarhlutdeild íbúa sé eðlilegt að leiðrétta gjaldskrár að hluta til fyrir áfallinni verðbólgu.
Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrár þjónustugjalda hækki um að jafnaði 4,5%. Í því felst að verðlagshækkun vegna samanlagðra gjaldskrártekna á hverju sviði nemi að jafnaði um 4,5%, þótt hver og einn gjaldskrárliður hækki eftir atvikum meira eða minna.