Fjölsótt Loftslagsþing fór fram í Tjarnarsal Ráðhússins í dag þar sem á annað hundrað nemendur í grunnskólum borgarinnar og kennarar settust á rökstóla til að ræða hvernig gera mætti skólana sjálfbærari.
Þingið var liður í vitundarvakningu um loftslagsmál og innleiðingu á samstarfsverkefninu Grænskjáir en það er sjálfbær hugbúnaðarlausn frá fyrirtækinu Klöppum sem verið er að innleiða í grunnskóla borgarinnar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti Loftslagsþingið. Sagði hann meðal annars gott að sjá hve unga fólkið hefði mikinn áhuga á að hafa áhrif á umhverfið og framtíðina og hve tilbúið það væri að leggja sitt af mörkum með aðgerðum og samstilltu átaki. Þá hvatti Guðni Th. Jóhannesson forseti, í rafrænu ávarpi, til bjartsýni í umhverfismálum og sagði: „Við skulum ekki fyllast loftslagskvíða, heldur kappi. Loftslagskappi!“
Leikjavæðing umhverfisgagna mikilvæg
Grænskjáir eru í grunninn hugmynd unnin út frá því að nýta stafræna sjálfbærnilausn Klappa til að mæla kolefnisspor grunnskóla Reykjavíkur og efla umhverfislæsi ungmenna. Klappir, Landvernd og Reykjavíkurborg buðu fjórum einstaklingum úr hverjum skóla borgarinnar að taka þátt í Loftslagsþinginu.
Grænskjáir, sem sýna helstu upplýsingar sem koma úr Sjálfbærnilausn Klappa, verða innleiddir í grunnskóla Reykjavíkur. Upplýsingar verða settar fram um kolefnislosun skólans ásamt undirliggjandi orsakir hennar, t.d. rafmagnsnotkun, samgöngur og úrgangsmyndun. Áhersla verður lögð á skemmtilega og auðskiljanlega framsetningu ásamt fræðslu um málefnið og upplýsingar um hvernig bestum árangri verður náð. Ávinningur verkefnisins er margþættur en lítur einna helst að styrkingu skólabarna í gagnadrifnu umhverfislæsi og getu þeirra til að hugsa um loftslags- og umhverfismál á gagnrýninn, upplýstan og skýran hátt. Samhliða innleiðingu Grænskjánna mun Landvernd reka öflugt umhverfismenntunarstarf í skólunum með námsefni og fræðslu sem styðst meðal annars við Grænskjáina. Leikjavæðing umhverfisgagnanna verður mikilvægur liður í verkefninu til að auka samanburð, samhæfingu og samhug innan skóla og á milli þeirra. Verkefnið Grænskjáir vann m.a. til verðlauna í flokki sjálfbærni hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en 450 verkefni frá 28 ESB-ríkjum sóttu um verðlaunin.
Á loftslagsþinginu unnu nemendur með hugmyndir að aðgerðaáætlun í umhverfismálum út frá markmiðum grænfánans.
Hér má sjá meira um Grænskjái.