Ævintýramaðurinn Jón Rósmann Mýrdal hefur búið í Grafarvoginum frá árinu 1990. Fyrst var hann í Garðhúsum og síðar Jötnaborgum en nú býr hann í Bryggjuhverfinu og er alsæll þar. „Þetta hverfi hitti mig mjög sterkt fyrir. Ég elska að vera hér, mér finnst ég kominn heim. Ég verð í Bryggjuhverfinu þar til mér verður dreift í sjóinn hér.“
Það er stutt í húmorinn þótt alvara sé greinilega að baki og Jóni líður afskaplega vel í hverfinu. „Ég bý á þriðju hæð, alveg við sjóinn og hef stórkostlegt útsýni. Að vakna á morgnana og labba fram, að risastórum glugganum, er himneskt. Ég horfi nánast aldrei á sjónvarp, hér horfir maður bara út um gluggann. Hér er svo mikil náttúra og iðandi dýralíf. Fyrir utan gluggann synda endur og álftir og stundum sé ég líka skarfa. Ég get kastað brauði til fuglanna af svölunum hjá mér og einu sinni lék ég mér að því að kasta út færi af þriðju hæðinni og tókst að veiða kola. Ég húkkaði hann upp en kyssti hann svo bara bless og sleppti honum. Á vorin er hér allt fullt af laxi líka því þegar hann er að koma upp í Elliðaárnar villist hann oft og kemur inn í Bryggjuhverfið. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með honum. Svo má ekki gleyma selunum; þeir eru oft hér og komast leikandi upp á bryggjuna. Stundum sest einn hér að um tíma og þá hef ég gjarnan kastað til hans fiski þegar ég kem inn á bátnum. Selurinn er ótrúlega gæfur. Það eru algjör forréttindi að hafa allt þetta líf svona rétt fyrir utan stofugluggann. Þegar synir mínir vildu fá hund sagði ég þeim bara að við værum með nóg af dýrum; hér eru gæludýrin fyrir utan gluggana,“ segir Jón og brosir. Hann kveðst ekki geta hugsað sér að búa annars staðar. „Það væri þá helst í karabíska hafinu. En ég er reyndar með plan. Eftir um fimm ár sé ég fyrir mér að kaupa snekkju og sigla í nokkur ár um heimsins höf,“ segir Jón.
Óvenjulegt upphaf góðrar vináttu
Sem leiðir okkur að ævintýralegum áhugamálum Jóns. Hann ólst að hluta til upp austur í Neskaupstað. „Þar voru allir á sjó. Maður fór út á árabát sjö ára til að veiða og þetta varð að dellu sem sat í mér,“ segir hann, en Jón fór fyrst á sjó 13 ára gamall og starfaði þar lengi. Í dag á hann tvo báta. „Ég á RIB-bát, sem er mjög skemmtilegur úthafsgúmmíbátur með hörðum botni. Svona bátar eru oft notaðir í hvalaskoðun en minn er minni og tekur 7-8 manns. Svo er ég með norskan Fjord-bát. Hann er með svefnpláss fyrir fimm manns, eldhús, klósett og allt slíkt. Það er lítil snekkja sem ég geymi í Snarfarahöfninni en RIB-báturinn er í Bryggjuhverfinu,“ segir Jón. Hann siglir aðallega til gamans en veiðir líka svartfugl og fisk; aðallega þorsk og ýsu en einnig kola og makríl. Einu sinni þegar Jón var niðri í miðbæ settist hjá honum bandarískur ferðamaður. Þeir reyndust eiga svipuð áhugamál og spjölluðu mikið og þegar í ljós kom að maðurinn og kona hans hefðu misst hótelherbergið sitt og væru að leita að gistingu bauð Jón þeim til sín. Daginn eftir komu hjónin til hans í Bryggjuhverfið. „Ég vildi gera vel við þau eins og Íslendinga er háttur, hafði sett vín á borðið og var að elda kjúklingarétt þegar í ljós kom að konan borðaði ekki kjöt. Hún vildi helst bara íslenskan þorsk og voru þau á Íslandi meðal annars til að borða ferskt sjávarfang. Ég átti ekkert slíkt en sagðist bara myndu redda þessu. Þau urðu hissa en á RIB-bátnum er ég enga stund út fyrir Viðey, þar sem ég vissi að væri þorskur, svo ég skaust bara þangað, veiddi einn stóran þorsk og kom með hann spriklandi í land. Ég gerði að honum í eldhúsinu og konan fékk sinn glænýja fisk,“ segir Jón og brosir. Úr varð mikil vinátta og ætla hjónin að heimsækja hann aftur til Íslands, auk þess sem Jón á inni heimboð hjá þeim í Bandaríkjunum þar sem þau reka stórt tölvufyrirtæki og stunda útivist af krafti, rétt eins og Jón.
Fann lyktina úr hvalskjafti við bátinn sinn
Jón kann ótal skemmtilegar sögur. Hann var meðal stofnenda Sportkafarafélags Reykjavíkur og eitt sinn fyrir mörgum árum, þegar hann var að kafa við Kjalarnes, var selur allt í einu í um 20 cm fjarlægð frá andliti hans. „Hann var bara að fylgjast með mér en ég hef aldrei á ævinni hrokkið jafnrosalega við,“ segir Jón og rifjar upp þegar hann hitti þýska konu bróður síns í fyrsta sinn. „Hún hafði aldrei farið á sjó svo ég dreif þau út í stóra bátinn og við dóluðum við Lundey í ægilega góðu veðri. Allt í einu birtist risastór kjaftur við bátinn; þetta var stór hvalur sem stakk sér um tíu metra frá bátnum, kafaði undir hann og kom svo upp úr hinum megin. Hann var svo nálægt að þegar hann geispaði fundum við lyktina út úr honum. Hann var þarna heillengi með okkur og þegar ég heyrði í talstöðinni að hvalaskoðunarbátarnir væru að leita kallaði ég á þá. Þetta var auðvitað rosaleg upplifun fyrir þessa konu, sem hafði aldrei áður farið út á sjó.“
Bryggjuhverfið ákveðinn miðpunktur
Áhugamál Jóns liggja einnig á fleiri sviðum. „Ég er líka með flugdellu og á mótorsvifdreka með hundrað hestafla mótor og sæti fyrir tvo. Á honum hef ég flogið yfir landið og jöklana,“ segir hann og ástríðan virðist engu minni en í sjávarsporti. „Heiman frá mér get ég fylgst vel með sjónum; hafgolunni og innlögninni. Ef ég sé hvítfyssandi öldur við Viðey veit ég að það er ekki gott að fara að fljúga og fer þá frekar að sigla.“
Jón keypti nýlega tún á Mýrunum í Borgarfirði, þar sem hann hyggst meðal annars byggja bústað og flugbraut og hafa bát í fjörunni. „Þangað mun ég geta siglt heiman frá mér og það verður gaman að taka á móti vinum þarna. Fólkið sem stundar þessi áhugamál er mjög virkt og Bryggjuhverfið er ákveðinn miðpunktur,“ segir hann. „Mér finnst gaman að vera til og fá að búa í svona góðu landi og svona frábærri borg. Ég er mjög sáttur við breytingarnar í borginni, hvernig allt er gert náttúruvænna og betra fyrir hjólafólk til dæmis. Ég tala nú ekki um þegar Bryggjuhverfið verður orðið alveg tilbúið og komin meiri þjónusta, það verður æðislegt. Þetta er nógu mikil perla fyrir,“ segir þessi lífsglaði viðmælandi okkar að lokum.