Æ fleiri nota virka ferðamáta

Hjólaborgin Samgöngur

Hjólað í vinnuna 2022

Hjólað í vinnuna var sett í tuttugasta sinn í morgun. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) stendur fyrir verkefninu sem tekur þrjár vikur. Borgarbúar og allir landsmenn eru hvattir til að nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota aðra virka ferðamáta. Hjólreiðafólk getur nú notað Borgarvefsjá Reykjavíkurborgar til að finna stystu leiðir og öruggustu leiðir á milli staða en bætt hefur verið við „Leiðabestun“ á vefinn fyrir gangandi og hjólandi í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri nefndi í ávarpi sínu að Reykjavíkurborg hefði stóreflt stígakerfið á liðnum árum og að nú færu æ fleiri borgarbúar til og frá vinnu og skóla á hjóli. Samkvæmt könnun sem gerð var í nóvember 2021 fara 11% fótgangandi, 8% með strætó, 2% á rafmagnshlaupahjóli og tæplega 7% á hjóli til og frá vinnu eða skóla.

Leiðabestun í borgarvefsjá

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að Hjólað í vinnuna væri besta lýðheilsuframtakið sem ráðist hafi verið í, gott fyrir líkama, anda og félagsskap því það efli liðsandann.

Áfram er unnið að því að koma hjólaneti höfuðborgarsvæðisins í Google Maps en á meðan beðið er getur hjólreiðafólk notað Borgarvefsjá Reykjavíkurborgar en þar hefur verið bætt við „Leiðabestun“ fyrir gangandi og hjólandi í Reykjavík. Hægt er að stilla á stystu leiðina og öruggustu leiðina. Google Maps notar gögnin í Borgarvefsjá til að mæla með gönguleiðum í borginni.

Aðstæður fyrir hjólandi gjörbreyst

Borgarstjóri sagði að þessi frábæra keppni – Hjólað í vinnuna - hafi átt stóran þátt í að gjörbylta hjólamenningunni á Íslandi. „Viðhorfsbreytinguna varðandi hjólreiðar má líka rekja til þess að landslagið hér í borginni hefur gjörbreyst í orðsins fyllstu merkingu – og þá á ég við þá markvissu uppbyggingu sem við höfum ráðist í á göngu- og hjólastígakerfi Reykjavíkur á síðustu árum. Nú er hægt að fara flestra sinna ferða hjólandi eða gangandi á auðveldan og öruggan hátt – sem var svo sannarlega ekki raunin fyrir 20 árum,“ sagði Dagur.

Markmið Hjólreiðaáætlunar Reykjavíkur 2021–2025 er að auka verulega hlutdeild hjólreiða í ferðum í borginni. Í henni kemur m.a. fram að 5 milljörðum króna verði varið í betri innviði fyrir hjólandi til 2025.

Tenglar

Göngu- og hjólastígaframkvæmdir 2022

Jákvæð þróun á ferðamátum Reykjavíkinga

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur til 2025

Hjólað í vinnuna 2022