Víðavangshlaup ÍR á uppstigningadag

Samgöngur Íþróttir og útivist

""

Víðavangshlaup ÍR verður haldið fimmtudaginn 13. maí, uppstigningardag. Sæbraut verður lokuð á meðan hlaupinu stendur og allar götur að henni frá Dalvegi að Geirsgötu. Lokunin verður á milli 10:30 og 14:30.

  • Sæbraut lokuð á milli 10:30 – 14:30 frá Geirsgötu að Dalvegi

  • Aðliggjandi götur á þeim kafla einnig lokaðar

  • Hlaupið ræst kl. 12:00 í nokkrum hópum vegna COVID-19

  • Þátttakendur hvattir til að virða sóttvarnarreglur

Víðavangshlaup ÍR og Íslandsmeistaramót í fimm kílómetra götuhlaupi verður haldið á uppstigningardag. Hlaupið verður ræst kl. 12:00 á syðri akrein Sæbrautar fyrir framan Hörpu. Endamarkið er á torginu fyrir framan Hörpu. Hlaupið verður eftir syðri akrein austur að gatnamótum við Kringlumýrarbraut, beygt inn á Kringlumýrarbraut og tekinn snúningur til baka í átt að Sæbraut á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns. Þá verður Sæbrautin hlaupin áfram til austur að Kirkjusandi þar sem tekinn er snúningu inn á nyrðri akreinina og hún hlaupin til baka áfram í mark við Hörpu. Lokun Sæbrautar er á milli Geirsgötu í vestri og nær að Dalbraut austan megin á meðan hlaupi stendur.

Samkvæmt upplýsingum frá mótshöldurum hefur Víðavangshlaup ÍR farið fram á sumardaginn fyrsta í rúma öld en það var fyrst haldið árið 1916 og hefur síðan þá verið stór viðburður í menningar- og íþróttalífi í Reykjavík. Enginn íþróttaviðburður hér á landi á jafn langa samfellda sögu. Hlaupið er einnig eitt fjölmennasta 5 km hlaup landsins.

Farið að sóttvarnarreglum

Í ár var ekki mögulegt að halda hlaupið fyrr en nú vegna samkomutakmarkana vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Frjálsíþróttadeild ÍR leggur ríka áherslu á að framfylgja sóttvarnarreglum um takmörkun á samkomum vegna COVID-19 og leiðbeiningum Frjálsíþróttasambands Íslands um framkvæmd frjálsíþróttamóta á farsóttartíma. Hlaupið verður því ræst í nokkrum afmörkuðum hópum á mismunandi tímum og eiga þátttakendur ekki að mæta á keppnisstað fyrr en skömmu fyrir ræsingu. Dregið hefur verið úr allri umgjörð hlaupsins til þess að lágmarka viðveru keppenda á keppnisstað og þeir hvattir til að yfirgefa keppnisstað fljótlega eftir að í mark er komið. Leiðbeiningar hafa verið sendar á alla skráða þátttakendur um tilhögun á rás- og endamarki.

Starfsfólk hverfastöðvar Reykjavíkurborgar við Fiskislóð sér um götulokanir í samstarfi við skipuleggjendur hlaupsins.