Vesturbæjarlaug er fyrsti starfsstaður Reykjavíkurborgar sem hlýtur Regnbogavottun Reykjavíkurborgar, en tilgangurinn með henni er að gera starfsemi borgarinnar hinseginvænni. Í tilefni af því var Önnu Kristínu Sigurðardóttur, forstöðumanni Vesturbæjarlaugar, veitt viðurkenning frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar.
Í Vesturbæjarlaug er verið er að útbúa sérklefa sem hugsaður er fyrir fólk sem þarf á sér aðstöðu og bættu aðgengi að halda og eru m.a. notaðir af fötluðu fólki, trans fólki og fólki með sérþarfir, t.d. foreldrar með eldri börn sem þurfa sérstaka aðstoð. Með því að bjóða upp á sérklefa vill Reykjavíkurborg tryggja að allir hafi tækifæri til þess að komast í sund. Búist er við að sérklefinn verði tilbúinn á allra næst dögum.
Allir starfsstaðir borgarinnar geta fengið Regnbogavottun en markmiðið með vottuninni er að gera starfsemi Reykjavíkurborgar hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks. Regnbogavottunin miðar einnig að því að auka þekkingu starfsfólks á mannréttindastefnunni, stöðu og réttindum hinsegin fólks og hvernig starfsstaðir og þjónusta borgarinnar geti verið hinseginvænni.
Til þess að fá vottunina þarf starfsfólk að taka þátt í fræðslu um hinsegin málefni og rýna þjónustuna sem veitt er á starfsstaðnum. Fræðslan byggir á ýmsum skemmtilegum verkefnum um hinseginleika en hún beinist einnig að því að skoða með hvaða hætti hver og einn vinnustaður geti verið hinseginvænni.
Vottunarferlið er þannig uppbyggt að starfsstaðir hafa sjálfir samband og óska eftir því, en allur starfsmannahópurinn þarf að taka þátt. Uppsetningin er eftirfarandi:
- Spurningalisti og samtal við stjórnanda (fyrir fyrstu fræðslu)
- Úttekt á rýminu, umhverfinu, vefsíðum og öðru efni eftir atvikum
- Fræðslur fyrir allan starfsmannahópinn sem eru 4.5 klst í heild
- Upplýsingaefni/gátlistar fyrir starfsfólk (að fræðslum loknum)
- Fáni, lógó og plakat (þegar starfstaðurinn hefur öðlast regnbogavottunina)
Fjöldi og lengd fræðslna er útfærsluatriði enda er starfsemi vinnustaða Reykjavíkurborgar ólík. Til þess að viðhalda regnbogavottuninni þarf starfsstaðurinn að fá 1.5 klst fræðslu á a.m.k. þriggja ára fresti, en það má ávallt óska eftir frekari fræðslu eins og þörf krefur.
Sjá myndband frá afhendingu Regnbogavottunarinnar í Vestubæjarlaug.
Nánari upplýsingar má fá í gegnum netfangið: hinsegin@reykjavik.is