Fáir þekkja Sundhöllina jafn vel og Ísleifur Friðriksson, tæknistjóri laugarinnar. En vatn og saltur sjór hafa leikið stórt hlutverk í lífi Ísleifs.
Ísleifur er einn fimm bræðra og ólust þeir upp í Kópavogi. Hafið kallaði og við Kópavoginn byrjuðu bræðurnir að leika sér á flekum en Nauthólsvíkurmegin var siglingaklúbburinn Ýmir stofnaður 1971 og þeir bræður gengu í klúbbinn. „Ég er fæddur inn í bátafjölskyldu og þegar fjölskyldan fór til messu á sunnudögum var alltaf farið niður á höfn eftir messu. Þar fór pabbi yfir útlit og yfirbragð ólíkra báta og skipa. Mamma stundaði kappróður á sínum yngri árum og af fimm bræðrum lærðu þrír skipasmíði. Heima hjá okkur voru mest myndir af skipum og bátum,“ segir Ísleifur.
Ísleifur var 13 ár til sjós og hann hefur stundað neta- og línuveiðar auk þess að fara á síld og loðnu og vinna á togurum. Siglingar eru líka áhugamál og íþrótt sem Ísleifur stundar. Hann hefur keppt ásamt félaga sínum Gunnlaugi Jónassyni á seglbáti á Evrópu- og heimsmeistaramótum svo ekki sé talað um Ólympíuleikana í Seoul árið 1988. „Í þessum keppnum höfum við keppt við alla fremstu siglingamenn í heimi; Frakka, Ný-Sjálendinga og Breta. Ég get fullyrt að ég var meðal 20 bestu siglingamanna í heimi,“ segir Ísleifur. Þeir félagarnir náðu ótrúlegum árangri á mótum miðað við aðstæður en þarna stóðu þeir sjálfir að mestu á bak við hverja keppni á meðan aðrir siglingakappar voru með stóra bakhjarla og hóp af aðstoðarmönnum sér við hlið.
Hæfni Ísleifs sem járnsmiður og tengsl við hafið urðu til þess að hann fór að starfa fyrir borgina árið 2001. „Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður í Siglunesi þar sem ég smíðaði bátavagna og tók þátt í því að búa til aðstöðu fyrir siglinga- og sundfólk í Nauthólsvíkinni. Draumurinn var að gera Siglunes stærra í sniðum og byggja þar upp siglingaaðstöðu fyrir alla aldurshópa en úr því hefur ekki orðið. Hann segir alla geta gengið í siglingaklúbbinn Ými í Kópavogi og Brokey í Reykjavík hafi menn ástríðu fyrir siglingum.
“Ég starfaði í Siglunesi til 2013 en var lánaður í Bláfjöll 2004 þegar verið var að reisa þar stólalyftur. Þar lágu leiðir okkar Loga Sigurfinnssonar saman og starf mitt í Bláfjöllum var upphafið að góðu samstarfi milli okkar Loga. Árið 2012 varð Logi yfirmaður í Nauthólsvík og sundlaugum borgarinnar og þá bað hann mig um að gerast tæknistjóri í Laugardalslaug og síðar einnig í Sundhöllinni,“ segir Ísleifur. Hann segir það ekki létt verk að vera tæknistjóri sundlaugar. Ekkert má klikka og vaktin er a.m.k. frá sex á morgnana til ellefu á kvöldin og sjaldan rauðir dagar á tæknivakt lauganna. Þegar gengið er með Ísleifi um völundarhús pípulagna og geyma undir Sundhöll Reykjavíkur er það alveg ljóst að það er ekki lítið verk að halda hitastigi, vatnsmagni og hreinleika í laugum, pottum og gufuböðum eins og kröfur segja til um. Að sögn Ísleifs kostar ein laug á við heilan skuttogara með fjórum vélstjórum en þó er það þannig að oftar en ekki stendur bara einn maður vaktina í vélarsal sundlauga.
Álagið við að halda utan um tvær helstu laugar borgarinnar var mikið og þegar Logi tók við Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fylgdi Ísleifur honum þangað. Þar hugar hann að vélum og tækjum auk þess að bralla við alls kyns viðgerðir og viðhald í garðinum. Honum rann þó blóðið til skyldunnar þegar menn gátu ekki án hans verið í Sundhöllinni. Síðan í desember hefur hann því verið í hlutavinnu í Sundhöllinni meðfram störfum sínum í Fjölskyldu- húsdýragarðinum. Það er til að koma vélum Sundhallarinnar í gott horf áður en hann fer í starfslok eftir tæp tvö ár.
Auk sjómennskunnar, sem er Ísleifi í blóð borinn, er hann mikill útivistarmaður og hann fer allra sinna ferða á reiðhjóli óháð veðri og vindum. Það skipti hann máli að drengirnir hans fjórir kynnu að tjalda og að þeir gætu bjargað sér úti á sjó en með því yrðu þeim flestir vegir færir.
Árið 1988 hitti hann núverandi eiginkonu sína, Borghildi Hertervig, í siglingafélaginu Ými. „Þarna var komin ný kona í klúbbinn sem átti bát, bretti og rauða kápu. Félagar mínir sögðu að ég ætti ekki sjéns en það fór nú svo að við erum búin að vera saman í yfir 30 ár og eigum saman tvo stráka. Ég átti tvo drengi fyrir og nú eru barnabörnin orðin fimm og eitt á leiðinni og öll siglum við.“
Ísleifur kveðst fjarri því að ætla sér að setjast í helgan stein þó líði að starfslokum. Þau hjónin eiga skútu sem er staðsett í Danmörku, þar sem einn sonur þeirra hjóna og sonur Ísleifs frá fyrra hjónabandi búa nálægt hvor öðrum. „Planið er að sigla þaðan út í sólarlagið. Okkur langar til að sigla eftir Signu, Rín, Dóná og/eða Elbu. Mögulega siglum við í gegnum Svíþjóð og til Póllands og til Eystrasaltsríkjanna. Eitt er víst að það eru endalausir möguleikar fyrir fólk á góðum báti,“ segir Ísleifur að lokum en hann er einn af fólkinu okkar í borginni.
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace