Úrbótasjóður tónleikastaða kallar eftir umsóknum

Menning og listir Mannlíf

""

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í úrbótasjóð tónleikastaða í Reykjavík. Umsóknarfrestur er til 31. maí nk.

Hlutverk úrbótasjóðsins er að styðja við tilvist minni og miðlungs stórra tónleikastaða í Reykjavík sem og menningarhúsa sem sinna lifandi tónlistarflutningi með því að veita styrki til úrbóta hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og aðgengi. Þannig er stuðlað að áframhaldandi aðstöðu fyrir lifandi tónlistarflutning í borginni sem styður um leið við tónlistarlífið og eflir mannlífið.

Um er að ræða átaksverkefni til tveggja ára. Fyrst var úthlutað úrsjóðnum fyrir árið 2020 svo nú er um seinni úthlutun að ræða. Í úrbótasjóðinn rennur árlegt framlag úr menningarpotti Reykjavíkurborgar að upphæð kr. 8 milljónir, til viðbótar við framlag frá samtökum og félögum innan tónlistar. Í ár er um að ræða viðbótarframlag frá STEF að upphæð kr. 500.000 og FÍH að upphæð kr. 300.000. Heildarpotturinn nemur því 8,8 milljónum króna.

Ein af meginstoðum hverrar tónlistarborgar er sá vettvangur sem er til staðar fyrir lifandi tónlistarflutning, tónleikastaðirnir. Undanfarin ár hefur sú þróun átt sér stað í borgum, ekki einungis á Íslandi heldur um allan heim, að tilvist minni og miðlungsstórra tónleikastaða hefur verið ógnað. Ástæðurnar eru einna helst þétting byggðar og aukinn ferðamannastraumur sem breytir ásýnd borga, einkum miðsvæðis. Tónleikastöðum er lokað vegna byggingar hótela og íbúðakjarna eða leigan hækkar og reynist of stór biti að kyngja. Þversögnin er sú að engin er borg án mannlífs og flestir eru væntanlega sammála því að tónleikastaðir og ýmis konar menningarstarfsemi er stór hluti af því sem gerir borgir aðlaðandi heim að sækja eða búa í. Með úrbótasjóðnum er verið hlúa að þeim stöðum sem fyrir eru í borginni. Við þetta má bæta að með gjörbreyttu landslagi tónlistariðnaðarins þar sem lifandi tónlistarflutningur hefur tekið við sem ein megin tekjulind tónlistarfólks þá er það jafnvel enn meira aðkallandi og nauðsynlegt tónlistarlífinu öllu að tryggja aðstöðu til lifandi tónlistarflutnings.

Úrbótasjóðurinn er hluti af verkefninu Tónlistarborgin Reykjavík sem sett var á laggirnar haustið 2017. Úrbótasjóðurinn heyrir undir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem skipar faghóp til tveggja ára sem fer yfir umsóknir. Ráðið tilnefnir einn fulltrúa sem er jafnframt formaður og hagsmunasamtök innan tónlistar er leggja sjóðnum til fé skipa sameiginlega tvo fulltrúa. Faghópurinn leggur fram rökstuddar tillögur um úthlutun úr sjóðnum fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem endanlega ákveður úthlutanir.

Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar er að finna á hér.