Ungmenni funda með borgarstjórn

Stjórnsýsla Skóli og frístund

""

Í dag, föstudaginn 11. júní, funda fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna með borgarstjórn í borgarstjórnarsal Ráðhússins.

Ungmennaráð leggur fram tillögur frá ungmennum í Reykjavík um málefni sem skipta þau máli. Hvað finnst þeim að betur megi fara í borginni? Fundurinn hefst kl. 15 og hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi.

Reykjavíkurborg var eitt fyrsta sveitarfélagið á landinu til að stofna ungmennaráð og nú er fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar orðinn að árvissum viðburði. Þessi fundur er sá tuttugasti í röðinni og því má segja að samstarf ungmenna og borgarstjórnar eigi stórafmæli í ár og því ber að fagna.

Samgöngur, aðgengi, umhverfi og kynheilsa

Tillögurnar sem lagðar hafa verið fram á fundum ungmenna og borgarstjórnar undanfarin tuttugu ár hafa margar haft áhrif til góðs fyrir ungmenni í borginni. Til dæmis hafa þær skilað sér í bættum strætósamgöngum,  aukinni kynfræðslu og ókeypis tíðavörum í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. Þá hafa tillögurnar leitt til að stjórnir og ráð í borginni hafa beðið um álit ungs fólks í sinni vinnu. Ungmennaráðin hafa líka fengið fjármagn til að styrkja margvísleg verkefni í hverfum borgarinnar og til að halda regluleg ungmennaþing.

Ungmennin leggja fram átta tillögur á þessum fundi með borgarstjórn. Þær snúa til dæmis að bættu hjólastólaaðgengi, meiri fræðslu um ofbeldisvarnir og að því að Reykjavík verði plastlaus borg. Þau leggja líka til tillögurnar þeirra verði afgreiddar hraðar í borgarstjórn og að þau geti fylgst með því hvar málin eru í afgreiðsluferli. Meðfylgjandi er yfirlit yfir tillögurnar sem lagðar verða fyrir borgarstjórn á fundinum 11. júní.

Ungmenni hafa áhrif

Í vetur hafa fulltrúar í Reykjavíkurráði ungmenna haft í nógu að snúast en ráðið hittist á vikulegum fundum sem oftar en ekki voru fjarfundir vegna aðstæðna í samfélaginu. Ráðið vann m.a. umsagnir um málefni og stefnur og var í samstarfi við ungmennaráð Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNICEF og ungmennaráð á Norðurlöndunum.

Fulltrúar ráðsins voru líka í skóla- og frístundaráði, í stjórn Barnamenningarhátíðar og framtíðarhópi um menntastefnu Reykjavíkurborgar. Á nýafstöðnu Menntastefnumóti tóku fulltrúar ráðsins þátt í umræðum og gerðu kynningarmyndband um starf ungmennaráða.

Reykjavíkurráð ungmenna er samráðsvettvangur allra ungmennaráðanna, sem eru sex og starfa í hverfum Reykjavíkur. Markmið þeirra er að skapa vettvang til að þeir sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum.