Opinn fundur um Heilsuborgina Reykjavík og lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar var haldinn í Tjarnarsal Ráðhússins í morgun.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði fundinn með erindi um lýðheilsu í Reykjavík. Borgarstjóri ræddi um lýðheilsu á breiðum grunni og hvað borgir gætu gert til að bæta heilsu borgaranna með góðu skipulagi og innviðum, almenningsamgöngum, grænum svæðum, fræðslu og forvörnum og fleiru. Borgarstjóri lagði til á fundinum að farið yrði í tilraunaverkefni þar sem unglingaskólar í Reykjavík hefji kennslu seinna á morgnana. Rannsóknir hafi sýnt að í svefni eigi sér stað staðviðgerðaferli og úrvinnsla upplýsinga sem er nauðsynleg til að börn þroskist og dafni, auk þess sem vansvefta ungmenni sýni lakari framleiðni yfir daginn. Kom fram í máli borgarstjóra að embætti landlæknis verði með í þessu tilraunaverkefni.
Stór hópur unglinga sefur of lítið
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hélt fróðlegt erindi um Heilsuborgina Reykjavík og drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030.
Dr. Erla Björnsdóttir svefnsérfræðingur hélt stutt erindi um svefnvenjur unglinga þar sem fram kom að matarræði, hreyfing og svefn skipti höfuðmáli fyrir andlega og líkamlega heilsu. Hún sagði að enn væri of lítil markviss fræðsla um svefn en sem betur fer væri það að breytast. Í dag væri málum þannig komið að stór hópur unglinga ætti erfitt með svefn og svæfi of lítið en nauðsynlegur svefn fyrir heilbrigðan þroska ungmenna væri 8-10 tímar á nóttu. Áhyggjuefni væri mikil neysla orkudrykkja með stórskömmtum af koffíni.
Lengi býr að fyrstu gerð
Ólöf Kristín Sívertsen verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar fjallaði um heilsueflandi skóla í heilsueflandi borg. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að fræðsla um heilbrigða lífshætti byrjaði snemma í skólakerfinu þar sem börn þurfi að læra að þróa með sér heilsusamlegt líferni. Það væri samfélagslega hagkvæmt að hefja heilsueflingu sem fyrst því einstaklingar búi lengi að fyrstu gerð. Ólöf Kristín sagði að Menntastefna Reykjavíkur, Látum draumana rætast hefði það að markmiði að efla heilbrigði með börnum enda væri það svo að heilbrigð börn væru hamingjusöm þar sem þeim liði vel. Það ætti bæði við um andlega og líkamlega heilsu.
Þráinn Hafsteinsson verkefnastjóri frístunda og félagsauðs í Breiðholti fjallaði um tilraunaverkefni um aukna þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi sem hefur beinst að börnum og unglingum af erlendum uppruna og börnum sem eiga erfitt bakland heima fyrir. Verkefnið hefur gengið vel en um 170 krakkar hafa nýtt tækifærið og hafið íþrótta- eða tómstundaiðkun að eigin vali. Verkefnið miðar að því að ná ungmennum í virkni sem fyrst. Komið hefur verið upp gjaldfrírri frístundarútu sem auðveldar börnum og ungmennum að komast á milli skóla og íþróttaæfinga.
Lýðheilsueflandi skipulag
Ævar Harðarson deildarstjóri Hverfisskipulags Reykjavíkur fjallaði síðan um það hvernig gott hverfisskipulag getur eflt lýðheilsu í hverfum með því að hafa alla þjónustu í nærumhverfi og innviði sem hvetja til útiveru og hreyfingar. Unnið er að hverfisskipulagi fyrir öll hverfi borgarinnar en það er þegar tilbúið fyrir Árbæ og bráðlega fyrir þrjú hverfi Breiðholts.
Heiða Björg Hilmissdóttir formaður velferðarráðs var fundarstjóri.
Streymi frá fundinum og drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar