Tungumálið mesti skellurinn

Mannlíf

""

Supatta Soodchit er tælensk að uppruna en hefur búið og starfað á Íslandi í yfir tuttugu ár.

Supatta eða Dúdda eins og hún er alltaf kölluð er frá Sawankhalok, sem er hérað í norðanverðu Tælandi. Héraðið er þekkt fyrir leirgerð, bananalauf og þar er líka ein af endastöðvunum í lestarkerfi landsins. Hún kemur frá borginni Sukhothai, sem er lítil borg á þeirra mælikvarða en er m.a. miðja búddisma og andlegra fræða í Tælandi. Í samtali við Dúddu er alltaf stutt í brosið og augljóst er að hún er ánægð með lífið og tilveruna.

Hvar er Ísland?

Eldri systir Dúddu, Sylvia,  hitti íslenskan mann í Tælandi, gifti sig og flutti með honum til Íslands. „Seinna komu þau í heimsókn með fimm ára frænda minn og þá spurði Sylvia hvort ég vildi ekki koma líka til Íslands. Ég spurði til baka: Hvar er Ísland? Ég þekkti Evrópu, vissi hvar Frakkland, Bretland, Þýskaland og fleiri lönd voru en hafði ekki hugmynd um hvar Ísland var. Ég var þá að vinna sem ritari á lögfræðiskrifstofu og fékk tíu þúsund krónur á mánuði í laun og systir mín sagði að ég myndi hafa það miklu betra á Íslandi.“

Það varð úr að Dúdda hélt til Íslands í lok árs 1999 þá tæplega tvítug. Hún byrjaði að vinna í fatahreinsuninni Úðafossi, og vann þar í þrjú ár þar til hún fékk dvalarleyfi. „Þetta var mjög erfitt í fyrstu. Mesti skellurinn var tungumálið. Ég skildi ekkert! Ég byrjaði svo að læra íslensku í Námsflokkum Reykjavíkur og dvölin varð léttari eftir því sem ég lærði meira,“ segir Dúdda. Hún leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að fá að læra íslensku. Það hefur sérstaklega mikið að segja fyrir okkur sem komum frá löndum þar sem ekki er gefið að við kunnum neitt í ensku heldur. Hún segir að enska hjálpi lítið sem ekkert fyrir þá sem koma hingað frá Tælandi.

Ástin, íslenskan og heimaþjónustan

Frá Úðafossi fór hún að skúra hjá ISS en í gegnum það starf kynntist hún manninum sínum, honum Árna. „Ég var að skúra hjá Fréttablaðinu og tölvan mín var biluð og svo langaði mig líka að kunna meira. Árni sá um tölvumálin og ég taldi í mig kjark að biðja hann um að hjálpa mér,“ segir Dúdda og roðnar og hlær. Það kom í ljós að þau bjuggu skammt hvort frá öðru og í gegnum tölvumálin urðu þau ástfangin og hafa nú verið saman á annan áratug.

Árið 2005 fór hún að vinna í heimaþjónustu í þjónustuíbúðunum í Furugerði en þaðan fór hún á Sléttuveginn, þar sem hún þreif heimili eldri borgara. Núna vinnur hún við félagslega heimaþjónustu í þjónustukjarna, sem þjónar Sléttuvegi 3, 7 og 9.  Dúdda hjálpar fötluðu fólki við allar daglegar athafnir. „Það voru fá tækifæri hjá Úðafossi eða ISS til að æfa íslensku en ég fékk tækifæri þegar ég fór að þrífa hjá öldruðum. Fólk er mikið eitt og það skiptir svo miklu máli að maður gefi sér tíma til að spjalla. Það er ekki nóg að koma bara og þrífa. Samtalið skiptir jafn miklu máli. Við græddum öll, ég gat æft mig í íslenskunni og fólkið mitt fékk meiri félagsskap,“ segir Dúdda. Núna skiptir íslenskan enn meira máli þar sem  Dúdda vinnur  með fötluðu fólki og aðstoðar það við allar athafnir daglegs lífs. „Ég er ekki bara að þrífa heldur hjálpa ég fólki að klæða sig, kaupa inn og við ýmislegt sem þau þurfa aðstoð við. Þetta er erfitt en skemmtilegt og gefandi starf.“

Íslendingur

Þegar Dúdda er spurð að því hvort hún fari ekki reglulega til Tælands kinkar hún kolli en bætir því við að nú eigi hún bara einn bróður úti svo það sé ekki ástæða til að fara jafn oft og þegar foreldrar hennar voru á lífi. „Og svo er ég orðin svo vön því að búa á Íslandi að þegar ég fer til Tælands þá þoli ég varla við vegna hitans. Ég sit undir sólhlífum og svitna og kólna til skiptis og oftar en ekki fæ ég kvef líka því ég er orðin svo óvön loftslaginu,“ segir hún og hlær. Hún segist heldur ekki vilja fara núna vegna COVID-19. Hún segir að ástandið í Tælandi sé ekki gott. „Ólíkt Íslendingum brugðust stjórnvöld í Tælandi seint við og smit var orðið mikið þegar þeir loks settu reglur.“

Árið 2007 sótti Dúdda um íslenskt ríkisfang og fékk það samþykkt. Hún er ánægð að vera Íslendingur og þótt  hana langi mikið til að ferðast meira um Evrópu þá vill hún hvergi annars staðar búa. „Hér er mitt líf í dag. En mig langar að læra fleiri tungumál eins og frönsku eða ensku. Ég hef líka mikinn áhuga á að sjá París, London eða Berlín. Það er svo fyndið að ég hef flogið til svo margra Evrópuríkja og einnig til Mið-Austurlanda eins og Dubai en aldrei farið út fyrir flugvöllinn. Alltaf bara verið að millilenda á leið minni til Tælands.“

Dúdda segir frá því að á hennar heimaslóðum sé mikil fátækt og fólk hafi lítil sem engin réttindi. Hún hefur alla tíð sent peninga heim. Hún rifjar upp hvað hrunið reyndist henni og stallsystrum hennar hér erfitt því þá gátu þær í fyrstu ekki sent peninga og svo voru hömlur á því vegna gjaldeyrishafta. „Það var sérstaklega erfitt vegna mömmu, sem þá var enn á lífi en þurfti mikla aðstoð frá mér. Ég og landar mínir, sem unnum í heimaþjónustu vorum mjög áhyggjufull því við skildum ekki alveg hvað var að gerast og við vissum ekki hvort við hefðum vinnu áfram og ekki var hægt að senda stuðning heim. Sem betur fer fór allt vel.“

Dúdda er sátt og henni finnst gott að vinna hjá Reykjavíkurborg. Þó að hún veikist nánast aldrei þá finnst henni öryggi í því að eiga veikindarétt og hún er ánægð með að fá eftirlaun. Hún segir að í Tælandi sé ellilífeyrir á eigin ábyrgð fólks og oftast séu það aðeins þeir efnameiri sem hafi tækifæri til að leggja til hliðar fyrir efri árin.  Dúdda er nýbúin að fá bólusetningu og fannst það léttir en fann líka fyrir kvíða í bólusetningunni sjálfri. Aðspurð um hvað hún geri í frístundum segist hún vera farin að stunda golf. „Við Árni erum að gera þetta saman og það er mjög gaman. Þetta er góð hreyfing og útivera en Árni þarf að létta sig. Hann er komin með vömb sem þarf að minnka,“ segir hún og hlær. En sjónvarp, ertu að fylgjast með einhverju? „Neih, ég horfi aldrei á sjónvarp nema Eurovisison, sem ég missi aldrei af,“ segir Supatta Sooditch að lokum.

#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace