Samstarfsaðilar í tónlist og kvikmyndum kynna Tónabíó, málþing um tónlist í kvikmyndum sem haldið verður 2. nóvember í Norræna Húsinu til að ræða framkvæmd tónsetninga á þáttum og kvikmyndum þar sem sífellt stærri verkefni eru nú framleidd héðan.
Margir af helstu sérfræðingum heims koma hingað til lands til að ræða við íslenska fagaðila í tónlist og kvikmyndum til að kynna bestu vinnubrögð tónsetningar, allt frá því hvernig svona verkefni eru bókuð, hvað ber að hafa í huga við samningagerð og hvað ber að varast, auk þess hvernig mismunandi fagaðilar eins og tónskáld og leikstjóri vinna saman. Að málþinginu standa Tónlistarborgin Reykjavík, Útón, Stef, SÍK, Kvikmyndasjóður Íslands og Riff.
Horft verður sérstaklega til hlutverks tónlistarráðgjafa (e. Music Supervisor) en það eru þeir sem velja tónlist í kvikmyndir og sjónvarpsþætti og að sjá um þá samningagerð sem því fylgir. Skilningur á þessari starfsgrein er sífellt að aukast hér á landi og hefur gífurleg velgengni íslenskra kvikmyndatónskálda á alþjóðamarkaði undirstrikað hve verðmætur hluti tónlistar er í kvikmyndum og mikilvægi þess að skilja hvernig sú umgjörð fellur að framleiðsluferli kvikmynda.
Fyrir einhverjum árum síðan mætti segja að Ísland væri fyrst og fremst þekkt sem lítil eyjaþjóð einhvers staðar í Atlantshafi - viðkomustaður ferðalanga á leið milli meginlanda Evrópu og N-Ameríku, með óljósar hugmyndir um eldfjöll, hveri og fjarlæga sögu víkinga. Jafnvel alþjóðlegir tónlistaunnendur vita kannski að Ísland er þaðan sem Björk kemur, en mögulega fátt annað.
Nú hefur þetta gjörbreyst þar sem íslenskt tónlistarfólk hefur skapað sér verulegan sess á heimssviðinu og þá sérstaklega á sviði kvikmyndatónlistar. Þá ber hæst að nefna Jóhann Jóhannsson og Hildi Guðnadóttur sem hafa ekki bara skarað fram úr á sínu sviði heldur sett mark sitt á nútíma kvikmyndatónlist og unnið vegleg alþjóðleg verðlaun sem ryður nýjar og spennandi brautir fyrir íslensk tónskáld.
Tónskáld eins og Atli Örvarsson og Ólafur Arnalds leggja sitt af mörkum til að marka Ísland á alþjóðavettvangi og vekja athygli á hæfileikum íslensks tónlistarfólks í kvikmyndum, sjónvarpi, tölvuleikjum og öðrum miðlum. Tækifærin til áframhaldandi uppbyggingar úr þessum hafsjó hæfileika er spennandi. Ég hlakka til að taka þátt í þessu ævintýri og hjálpa til við að undirbúa efnileg og fær ung tónskáld til að taka þátt í síbreytilegu landslagi tónlistarlegrar frásagnar.
- Thomas Golubic, Tónlistarráðgjafi (Breaking Bad, The Walking Dead, Better Call Saul)
Fengnir verða til landsins sérfræðingar á þessum sviðum en það eru þau Thomas Golubic, tónlistarráðgjafi sem er meðal annars þekktur fyrir vinnu sína við The Walking Dead, Alfons Karabuda, sem er forseti ECSA (European Composer and Songwriter Alliance) og forseti IMC (International Music Council), Tim Husom frá Redbird Music, sem meðal annars var umboðsmaður Jóhanns heitins Jóhannssonar, auk þess mun Steve Schnur ræða við Hildi Guðnadóttur en hann er yfirmaður tónlistar hjá Electronic Arts (EA) sem framleiddi tölvuleikinn Battlefield 2042 sem hún samdi tónlist fyrir og kom út á dögunum.
Efnistök munu ná til uppkaupssamninga (e. Buy-Out), sem hafa rutt sér rúms meðal kvikmynda- og sjónvarpsveita eins og Netflix auk þess sem umboðsmennska tónskálda og samband þeirra við kvikmyndatónlist verður tekin fyrir sérstaklega.
Aðrir dagskrárliðir eru pallborðsumræður þar sem fagaðilar ræða um það hvernig tónlist kemur inn í framleiðsluferli kvikmynda, en meðal þátttakenda verða Valdís Óskarsdóttir, Sigurjón Kjartansson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Silja Hauksdóttir, Jófríður Ákadóttir, Herdís Stefánsdóttir, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Ragnar Bragason, Hrönn Kristinsdóttir og Viktor Orri Árnason. Málþingsstjóri verður Anna Hildur Hildibrandsdóttir.
Daginn eftir mun tónskáldum og fagaðilum bjóðast að sækja um þátttöku í meistaranámskeiði (e. Masterclass) hjá sjálfum Thomas Golubic. Það er einstakt tækifæri til að skilja hvernig fagmenn fella nýja sem og áður útgefna tónlist að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Segja má að Thomas sé nokkurs konar goðsögn í faginu en hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa valið tónlist fyrir hina margrómuðu sjónvarpsseríu Breaking Bad og Better Call Saul.
Málþingið fer fram kl. 9-16 þann 2. nóvember og má nálgast miða á tix.is