Tökum þátt í Stóra plokkdeginum

Umhverfi

""

Stóri plokkdagurinn verður haldinn hátíðlegur fjórða árið í röð laugardaginn 24. apríl 2021. Dagurinn er haldinn fyrir tilstuðlan sjálfboðaliða. Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka þátt í deginum og fegra nærumhverfið. 

Stóri plokkdagurinn hefst með því að stelpurnar í Náttúruklúbbnum í Laugarneshverfinu opna Stóra plokkdaginn ásamt Forseta Íslands, umhverfisráðherra og formanni umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar klukkan 10 á laugardagsmorgun. Athöfnin fer fram í Laugardalnum en getur ekki verið fjölmenn sökum sóttvarna. 

Reykvíkingar eru hvattir til að plokka í nærumhverfi sínu. Hægt er að senda tilkynningar um staðsetningar ruslapoka að plokki loknu á ábendingavef Reykjavíkurborgar og starfsfólk hverfastöðva borgarinnar sér um að sækja pokana eftir helgina. Mikilvægt er að vera með sóttvarnargrímur og hanska eða plokktangir við plokkstarfið. Ruslið á víðavangi og í trjárunnum er oftast plast eða pappír og því gott að flokka ruslið ef fólk getur farið með það sjálft í flokkun.



Plokk á Íslandi heldur úti virkum hópi á samfélagsmiðinum Facebook þar sem um sjö þúsund meðlimir deila myndum af sínu plokki og sinni útivist. Þar er plokktímabilið 2021 sannarlega hafið. Þrátt fyrir samkomubann í fyrra tókst dagurinn mjög vel

Plokktrixin

  • Finna sér svæði til að plokka á og hvetja fjölskylduna til að taka þátt.
  • Stofna viðburð í hverfinu eða tengja sig inn á stofnaðan viðburð.
  • Útvega sér ruslapoka, hanska og plokktöng.
  • Klæða sig eftir aðstæðum.
  • Virða samkomubannið og gæta að tveggja metra reglunni.
  • Koma afrakstrinum á stað.
  • Senda upplýsingar um staðsetningu og magn á reykjavik.is/abendingar.
  • Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna svo mögulegt sé að fjarlægja þá.

Gangi öllum vel á Stóra plokkdeginum og farið varlega. #PLOKK2021

 

Tengill

Náttúruklúbburinn 

Stóri plokkdagurinn viðburður

Plokk á Íslandi 

Ábendingavefurinn í Reykjavík