Tilraunaverkefni með sérsöfnun á gleri og málmum í Árbæ lýkur í maí

Sorphirða

""

Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar með sérsöfnun glers og málma í breyttri græntunnu í Árbæ og Norðlingaholti lýkur núna um miðjan maí. Tilraunaverkefnið hefur staðið yfir í sex mánuði en það hófst í nóvember í fyrra. Íbúar voru duglegir að flokka en í hverri hirðu var safnað um 900 kg af gleri og 200 kg af málmi. Áfram verður boðið upp á gáma fyrir málma og gler á öllum grenndarstöðvum hverfisins.

Þegar verkefninu lýkur verða innhengd ílát fyrir gler í sérbýli fjarlægð og sömuleiðis glertunnurnar í fjölbýli og merkingar færðar til fyrra horfs. Mikilvægt er að íbúar setji eingöngu plast í grænu tunnuna að tilraunaverkefninu loknu.

Gámar fyrir málma og gler á öllum grenndarstöðvum hverfisins

Áfram verður boðið upp á gáma fyrir málma og gler á öllum grenndarstöðvum í Árbæ og Norðlingaholti, þannig að íbúar hverfisins geti áfram flokkað gler og málma. Alls eru sjö grenndarstöðvar í hverfinu, en staðsetningu þeirra má meðal annars finna í rafrænu sorphirðudagatali Reykjavíkurborgar.

Verkefnið náði til heimila í hverfinu sem voru með græna tunnu undir plast frá Reykjavíkurborg eða pöntuðu slíka á meðan á verkefninu stóð. Um það bil 4.000 manns búa á þeim heimilum í hverfinu sem eru með græntunnu, eða um 35% íbúa.

Takk fyrir þátttökuna!

Íbúar tóku verkefninu almennt mjög vel og voru duglegir að flokka. Græna tunnan var tæmd á þriggja vikna fresti og fyrstu niðurstöður benda til að í hverri hirðu hafi verið safnað um 900 kg af gleri og 200 kg af málmi. Miðað við áætlað magn blandaðs úrgangs frá íbúum sem tóku þátt í verkefninu er um að ræða u.þ.b. 3,5% af magni blandaðs úrgangs sem áætlað er að falli til, sem er um 60% af því magni glers og málma sem er í blönduðum úrgangi samkvæmt húsasorprannsókn Sorpu fyrir árið 2019. Reykjavíkurborg þakkar íbúum kærlega fyrir að taka þátt í tilraunaverkefninu.

Næstu skref

Niðurstöður verkefnisins og ábendingar íbúa, sem safnað var á meðan á verkefninu stóð, verða teknar saman og nýtast í yfirstandandi vinnu við samræmingu úrgangsflokkunar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Öll sveitarfélögin vinna nú saman að því að samræma flokkun. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 og stefnt er að því að niðurstöður geti legið fyrir í lok þessa árs.

Eldri frétt um tilraunaverkefnið.