Gleri og málmum safnað sérstaklega í Árbæ og Norðlingaholti

Umhverfi

""

Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar með sérsöfnun glers og málma í breyttri græntunnu í Árbæ og Norðlingaholti hefst í næstu viku og stendur yfir í sex mánuði. Verkefnið nær til þeirra heimila í Ártúnsholti, Árbæ, Selás og Norðlingaholti sem eru með græna tunnu frá Reykjavíkurborg eða panta græna tunnu á meðan á verkefninu stendur.

Í sérbýli bætist við innhengt ílát undir gler í tunnuna, en í fjölbýli bætist við tunna undir gler. Mikilvægt er að skrúfa af lok og tappa úr málmum af glerinu. Málma má setja lausa með plastinu í grænu tunnuna.

Nýjum ílátum verður dreift til íbúa samhliða því að græntunnan er tæmd en þetta verður á tímabilinu 24.-26. nóvember samkvæmt sorphirðudagatali Reykjavíkurborgar. Reglubundin hirða hefst þremur vikum eftir að dreifingu lýkur.

Mikilvægt að minnka urðun og auka flokkun

Tilgangurinn með sérsöfnuninni er að auka flokkun á málmi og gleri. Hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu henti tæpum níu kílóum af gleri og tæpum fjórum kílóum af málmi í grátunnuna samkvæmt rannsóknum Sorpu á húsasorpi árið 2019.  

Æskilegt er að sérsafna þessu efni og minnka urðun. Sérsöfnuðu gleri er skilað til Sorpu í Álfsnesi. Plast og málmar fara í flokkun í móttökustöð Terra og þaðan til endurvinnslu.