Hjólabrautir geta verið mikilvægur liður í því að efla hjólafærni íbúa og stuðla að aukinni hlutdeild hjólreiða í ferðum innan borgarinnar. Skipulags- og samgönguráð samþykkti á fundi sínum í vikunni að fela Umhverfis- og skipulagssviði að útfæra og greina nánar hugmyndir um hjólabrautir við Gufunesbæ og á Klambratúni og meta kostnað við uppbyggingu þeirra, rekstur og viðhald. Niðurstöður á að kynna fyrir ráðinu í maí.
Mynd/Dæmi um hönnun á hjólabraut erlendis/Wojtek.omb CC BY-SA 4.0 Wikimedia Commons
Hjólabrautir hafa verið til umræðu í stýrihópi um mótun Hjólreiðaáætlunar 2021-2025 eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og samgönguráði lögðu til að umhverfis- og skipulagssvið myndi finna staði í borgarlandinu fyrir varanlega hjólabraut. Fyrirmyndin var hjólabraut sem var á sínum tíma útbúin við rætur Öskjuhlíðar í samstarfi Reykjavíkur og hjólareiðafélagsins Tinds.
Fyrir hjól, bretti og hjólaskauta
Hjólabraut sem þessi kallast á ensku „pump track“ og er oftast stutt hringleið á flötu landi en hún er lögð með lágum brekkum. Í brautinni má æfa hjólatækni þannig að hægt sé að halda hraða nánast án þess að nota pedala. Brautir sem þessar geta einnig hentað hjólabrettum, hlaupahjólum og hjólaskautum. Gera þarf ráð fyrir 500-1000 m2 svæði fyrir svona braut.
Fimm mögulegar staðsetningar
Umhverfis- og skipulagssviðs hefur nú stungið upp á fimm mögulegum staðsetningum í borginni.
- Í stefnumörkun fyrir útivistarsvæðið við Gufunesbæ hefur verið rætt um hjólabraut. Þar því nánast tilbúinn staður fyrir slíka braut. Svæðið er rúmlega 1000 m2.
- Í stefnumörkun fyrir Klambratún er reiknað með hjóla- og brettabraut sem gæti verið „pump track“ braut. Svæðið er um 1500 m2.
- Til greina kæmi að koma fyrir braut á grænu svæði í Fossvogsdal, austan við
- matjurtagarða. Svæðið er um 2500 m2.
- Hugmyndir eru um svo kallaðan vetrargarð í Breiðholti. Þar mætti skoða hvort tækifæri séu til að samnýta svæði fyrir hjólabraut.
- Í Geirsnefi eru hugmyndir um útivistarsvæði í tengslum við Vogabyggð. Þar mætti hugsa sér hjólabraut sem hluta af uppbyggingu útivistarsvæðis.
Sem fyrr segir verða tvær þessara staðsetninga nú skoðaðar nánar.
Tengill