Hátíðarhöld á 17. júní í ár verða með svipuðu sniði og á síðasta ári vegna samkomutakmarkana.
Borgarbúar eru hvattir til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða með fánum og öðru í fánalitunum. Boðið verður upp á létta dagskrá á Klambratúni og í Hljómskálagarði einnig verða óvæntar uppákomur í miðborginni.
Hátíðardagskrá á Austurvelli
Morgunathöfn á Austurvelli verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þar sem allir landsmenn geta fylgst með heima í stofu. Athöfnin er hefðbundin og samanstendur af ávarpi Forsætisráðherra og fjallkonan frumflytur sérsamið ljóð við tilefnið.
Að venju sjá nýstúdentar um að leggja blómsveig að leiði Jóns og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði að lokinni morgunathöfn á Austurvelli. Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, flytur ávarp og skátar standa heiðursvakt.
Borgin verður skreytt með fánum og blómum.
Heima eða bregða sér í miðborgina?
Fyrir þá sem ætla að bregða sér niður í bæ þá verður létt stemning í miðborginni frá kl. 13 til 18.
DJ Dóra Júlía sér um tónlist á Klambratúni og Dj DE LA ROSA sér um ljúfa tóna í Hljómskálagarði. Í báðum görðum geta gestir gætt sér á veitingum í matarvögnum á vegum Götubitans og fylgst með sirkuslistafólki Hringleiks sýna listir sínar ásamt óvæntum uppákomum.
Hægt verður að heyra lúðrasveitarþyt Í miðborginni á milli kl. 13-18, sirkuslistafólk Sirkus Íslands, kórar, dansarar, tónlistarfólk, Listhópar Hins hússins og Götuleikhúsið bregða á leik víðsvegar um miðborgina til að skapa óvæntar upplifanir.
Einnig eru hátíðarhöld í nokkrum hverfum borgarinnar.
En eins og sagði í upphafi er fólk hvatt til að setja upp sína eigin þjóðhátíð með vinum og ættingjum. Grilla, syngja, dansa og uppgötva sirkuslistamanninn í sjálfum sér á heimavelli.
Meira á 17juni.is