Sýn myndasöguhöfunda á heimsfaraldri

Menning og listir

""

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Hugleikur Dagsson voru meðal höfunda sem tóku þátt í alþjóðlegri  myndasögusamkeppni undir þemanu „borgin í kjölfar heimsfaraldurs“

Borgin Angoulême í Frakklandi, sem er ein af Bókmenntaborgum UNESCO líkt og Reykjavík, stóð fyrir keppninni - Post-Pandemic City - þar sem myndasöguhöfundum frá öðrum Bókmenntaborgum og systurborgum Angoulême var boðið að taka þátt.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Hugleikur Dagsson sendu inn verk og verða þau hluti af sýningu á alþjóðlegu myndasöguhátíðinni í Angoulême sem verður haldin í júní næstkomandi. Hátíðin er meðal stærstu myndasöguhátíða í heimi. Sýningin mun svo ferðast til annarra borga í framhaldinu.

Hugleikur Dagsson

Um sína sögu segir Hugleikur:

„Ég hef alltaf verið bjartsýnismaður en verkin mín eru hins vegar bölsýn. Ég hugsa að ástæðan sé sú að ég kem öllu myrkrinu fyrir í sögunum mínum.

Hugmyndin á bakvið þennan einrömmung er að hlutirnir geta alltaf átt eftir að versna. Og á meðan við kvörtum stöðugt yfir núverandi ástandi með því að segja að heimurinn sé á heljarþröm held ég að við gleymum því að tímarnir eru alltaf að breytast og að við höfum litla stjórn á því hvort sem er. Kómísk sýn mín á að heimurinn verði sigraður af einhverju sem er miklu verra en Covid-19 er brandari um það hvernig sjónarhorn okkar hverju sinni getur breyst umsvifalaust.

Ég held að við Reykvíkingar og Íslendingar tökumst á við faraldurinn eins vel og við getum og ég er nokkuð bjartsýnn á góða framtíð. En ég teikna auðvitað ekki bjarta framtíð. Þannig vinn ég ekki. Svo ég dreg upp skondna litla martröð í staðinn.“

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Um viðfangsefni sýningarinnar og sitt verk segir Lóa:

„Markmið mitt með þessu verki er einfalt; ég vil skemmta fólki ef ég mögulega get og leyfa því að gleyma áhyggjum sínum í stutta stund. Ég hef gert myndasögur lengi en í janúar 2020 byrjaði ég að teikna eina sögu á dag og birta á netinu. Því verki lauk 31. desember og þar með varð til safn 365 sagna frá einkennilegasta ári sem flest okkar hafa upplifað.

Þegar faraldurinn var að kaffæra okkur reyndi ég að takast á við aðstæðurnar og hugsanir mínar í þessum daglegu sögum. Þetta var sameiginleg reynsla og ég áttaði mig á hvernig myndir og orð geta haft jákvæð áhrif á fólk.

Með þátttöku í Post-pandemic verkefninu langaði mig að gera kjánalega en jafnframt lýsandi sögu sem ýtir mjúklega við mínum eigin viðhorfum.

Ég vona að við lærum eitthvað af þessum hræðilegu tímum og að við verðum þakklátari fyrir það sem við höfum. Ég myndi vilja að fólk gæti unnið minna og varið meiri tíma með fjölskyldu og vinum. Borgin ætti ekki að hreyfast eftir þörfum þeirra sem stjórna peningunum heldur frekar umfaðma þarfir þeirra sem búa í borginni. (Mig langar líka til að það verði ræktaðar fleiri nytjajurtir í almenningsgörðum).“

Sigurvegari samkeppninnar er kanadíski höfundurinn Brigitte Archambault frá Québec og verður henni boðið til Angoulême í júní af þessu tilefni ef farsóttarmál leyfa. Dómnefndin segir verk hennar sameina myndrænan styrkleika með valdi á hefðinni og húmanísk skilaboð sem eigi erindi í umræðu um framtíð borgarsamfélaga.

Í dómnefnd voru myndasöguhöfundar, útgefendur og sérfræðingar frá Frakklandi, Króatíu og Slóveníu: Gérard Desaphy, Pierre Lungheretti, Dominique Brechtoteau, Marie Deschamps, Benoit Preteseille, Miroslav Sekulic, Marc Monjou og Samira Kentric.  

Auk Lóu og Hugleiks tóku listamenn frá Bókmenntaborgunum Angoulême, Bucheon í S-Kóreu, Québec í Kanada, Nanjing í Kína, Slemani í Írak og Ulyanovsk í Rússlandi þátt í samkeppninni og einnig frá Hildesheim í Þýskalandi, Hoffman Estates í Bandaríkjunum og Turda í Rúmeníu, sem eru systurborgir Angoulême. Þau eru Brigitte Archambault, Vincent Kings, Ruppert Tellac, Jiyoung Kim, Eunhye Lee. Mr Cat, Sen Gao / Di Hu / Xiaojing Hu, Awder Osman Baqi og Shamal Abu Baker Hussein, Alexander Volkov, Julia Uzriutova, Adrian Wenzel, Sean Dove og Alin Bilcu Mircea.