Það er sannkölluð sumarbyrjun þegar sumarblómin eru komin á Austurvöll. „Um leið og fyrsta blómið fer niður þá er komið sumar,“ segir Karen Hauksdóttir skrúðgarðyrkjufræðingur og aðstoðarverkstjóri í hverfastöðinni við Fiskislóð. Hún og starfsfólk hennar hafa verið á fullu í dag og í gær að gróðursetja í beðin við Austurvöll. Allt verður því fínt og flott á þjóðhátíðardaginn sjálfan.
Ánægja af því að skapa fallegt umhverfi
Karen hrósar starfsfólki sínu í hástert og segir það mjög öflugt. Gróðursetningin tók tvo daga í ár en hefur áður tekið upp í þrjá daga.
Tegundirnar sem mest er af á Austurvelli í ár eru nellikkur, ljónsmunni, möggubrá og fagurfífill. Karen hugar vel að samsetningu blómanna í beðunum. Sumt af því sem valið er er nú þegar komið í blóma. Annað byrjar seinna að blómstra og blómstrar lengur fram á haustið til að borgarbúar geti notið blómstrandi blóma sem lengst.
Sólblóm bætast við eftir helgi
Karen og félagar eiga enn eftir að setja í eitt beð á horni Pósthússtrætis og Vallarstrætis. „Ég skildi eitt beð eftir því það er spáð svo köldu um helgina.“ Í þetta beð koma hávaxnari og viðkvæmari tegundir eins og sólblóm sem bætast því við flóruna eftir helgi.
„Um leið og síðasta sumarblómið fer niður finnur maður ánægju yfir því að hafa skapað allt þetta fallega umhverfi,“ segir Karen og sannarlega er hægt að tengja við það. Blómin gleðja.