Styrmir Erlingsson tilnefndur til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 

Velferð

Í dag var tilkynnt hverjir eru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ÖBÍ. Á meðal tilnefndra er Styrmir Erlingsson, sem gegnt hefur stöðu stafræns leiðtoga velferðarsviðs. Styrmir var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri nýrrar rafrænnar þjónustumiðstöðvar sem tekur til starfa um áramótin. 

Hvatningarverðlaun ÖBÍ verða afhent við hátíðlega athöfn á morgun, 3. desember, á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks. Ásamt Styrmi eru Haraldur Ingi Þorleifsson, Seres hugverksmiðja og Reykjadalur tilnefnd til verðlaunanna. Styrmir er tilnefndur til verðlaunanna fyrir hugrekki, kraft og einstakan metnað í störfum sínum sem stafrænn leiðtogi velferðarsviðs. Haraldur er tilnefndur fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík, Seres hugverkaverksmiðja fyrir sjónvarpsþáttaröðina Dagur í lífi og Reykjadalur fyrir sumarbúðir sínar í Mosfellsdal. 

Þykja verkefnin öll endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðla að einu samfélagi fyrir alla, og falla því vel að tilgangi Hvatningarverðlaunanna.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á morgun, 3. desember. Streymt verður frá því þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin. Streymið verður aðgengilegt á Facebook-síðu ÖBÍ og hefst athöfnin klukkan 16.