Stúdentar vilja lifandi og grænt umhverfi í Breiðholti

Umhverfi Skipulagsmál

""

Niðurstöður í alþjóðlegu samkeppninni „Reinventing Cities Students“ liggja nú fyrir.  Háskólanemum var boðið að þróa svæði eða stórar lóðir í borgum víðsvegar um heiminn og Reykjavík bauð fram svæði í efra Breiðholti fyrir stúdenta að vinna með í samkeppninni.

Verðlaunatillagan fyrir Austurberg og Gerðuberg í Breiðholti kemur frá teyminu „Green Lab“  og í henni er lögð áhersla á lifandi, örugga og græna götumynd. Í vinningsteyminu eru Natalia Pączko og Mateusz Andrzej Rosa frá Wrocław University of Science and Technology.

Lykilþættir í hugmyndinni eru nokkrir: Í fyrsta lagi hjólastöð með öllum nauðsynlegum búnaði til viðgerða; í öðru lagi opið viðgerðarverkstæði þar sem íbúar geta fengið aðstoð og með tengingu við endurvinnslu væri margvíslega hagnýting möguleg og í þriðja lagi gróðurhús fyrir trjágræðlinga og aðra ræktun með áherslu á þjónustu og þekkingarmiðlun til íbúa á svæðinu.

Teymið „Green Lab“ kemur með fjölmargar aðrar ábendingar og á vef Reinventing Cities Students má lesa nánar um vinningstillöguna

C40 Reinventing Cities eru samtök borga um allan heim sem vinna saman að því að gera borgir sjálfbærar og grænar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þeirri vá sem af þeim stafar. Reykjavík er aðili að samtökunum og eru nú þegar fjögur þróunarverkefni í gangi á vegum C-40 í borginni, s.s. við Sævarhöfða, á Ártúnshöfða, í Gufunesi og við Lágmúla.

Tengt efni: