Streymisfundur um skipulag Borgarlínu í Reykjavík

Samgöngur Skipulagsmál

""

Opinn streymisfundur verður haldinn miðvikudaginn 14. apríl kl. 17:00 – 18:30. Á fundinum verða kynnt áform um fyrstu lotu Borgarlínu innan Reykjavíkur, frá Ártúnshöfða að Fossvogsbrú og fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi.

Frummælendur á fundinum verða Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Pawel Bartoszek, varaformaður skipulags- og samgönguráðs, Hrafnkell Proppé, forstöðumaður Borgarlínuverkefnis og Stefán Gunnar Thors, ráðgjafi frá VSÓ-ráðgjöf. Dagskrá fundarins verður kynnt nánar á vef borgarinnar. Fundinum verður streymt á síðunni reykjavik.is/borgarlina og facebooksíðu Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg samþykkti nýverið að kynna drög að breytingu á aðalskipulagi vegna Borgarlínu í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í tillögunni er m.a. fjallað um legu Borgarlínu, hugmyndir að staðsetningu lykil biðstöðva, hönnunarviðmið fyrir göturými og forgang almenningssamgangna og virkra ferðamáta. 

Drög að aðalskipulagsbreytingu, ásamt umhverfisskýrslu, eru aðgengileg á adalskipulag.is og jafnframt á samráðsgáttinni á Ísland.is. Í Frumdrögum Borgarlínu er hægt að finna ítarlegri upplýsingar, m.a. um forsögu ákvarðana, framkvæmdakostnað, hönnunarforsendur, legu, valkosti, umferðarspá og umhverfisáhrif. Frumdrögin eru aðgengileg á vef Borgarlínunnar.

Ábendingar og athugasemdir við drögin skal senda á netfangið skipulag@reykjavik.is eða á samráðsgáttina, velkomið er að senda fyrirspurnir á netfangið fyrir fundinn og verður þá leitast við að svara þeim ef þær berast tímalega. Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar hefur verið framlengdur til 31. maí 2021.  

Tenglar

Borgarlína - aðalskipulag Reykjavikur - streymi 14. apríl 2021

Síða streymisfundar - dagskrá o.fl.

Viðburður á facebook