Stoltur af því að alast upp í Fellunum

Skóli og frístund Íþróttir og útivist

""

Árni Jónsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Ársels, ólst upp í Unufelli í Breiðholti. Hann segir það hafa mótað sig á góðan hátt og að félagsmiðstöðin Fellahellir hafi haft áhrif á áhuga hans á félags- og frístundastarfi.

Árni segir að það hafi verið skemmtilegt að alast upp í Breiðholtinu en hann var alla grunnskólagöngu sína í Fellaskóla. „Jafnaldrar mínir voru alls konar krakkar og oft margt undarlegt um að vera heima hjá þeim en það var lítið pælt í því. Við vorum bara fyrst og fremst vinir og félagar.  Úr mínum árgangi er fullt af fólki sem hefur farnast vel og þar af eru alla vega tvær konur með doktorsgráðu svo ég viti.  Ég var formaður nemendaráðs og ritari með mér var engin önnur en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Oft urðum við krakkarnir vör við sleggjudóma í garð Fellahverfis og t.d. voru okkur eignuð í fjölmiðlum erjur sem urðu á milli unglinga í Bústaða- og Seljahverfi. Það voru kannski efnaminni fjölskyldur í Fellahverfi en í öðrum hverfum en það var ekki meiri ástæða til að stimpla hverfið verra til að alast upp í en önnur hverfi á þessum tíma. Ég hef alltaf verið stoltur af því að alast upp í Fellunum,“ segir Árni.

Þegar Árni horfir yfir áratuga reynslu sína í íþrótta- og tómstundastarfi í öðrum hverfum og á landsbyggðinni telur hann það mögulega mistök að hafa tvö íþróttafélög í sama hverfi eins og er í Breiðholti.  „Oft myndast svo mikil samstaða og samfélags- og hverfavitund í kringum íþróttafélögin,“ segir hann.

Eftir að hafa slitið barnsskónum í Breiðholti flutti fjölskylda Árna á Haðarstíg í miðborginni og hann fór í framhaldsnám, fyrst í Háskóla Íslands og svo í fjögurra ára nám í Kaupmannahöfn í uppeldisfræðum. Í náminu var mikil áhersla lögð á sjálfsþekkingu og hverjir styrkleikar og veikleikar manns væru í samskiptum við annað fólk.

Íþrótta- og tómstundastarf Árna hófst í Seljahverfi og Grafarvogi en svo lá leiðin í Tónabæ og þaðan í Nauthólsvík. „Þar átti ég yndisleg fimm ár þar sem við vorum að byggja upp sjóaðstöðu fyrir borgarbúa. Við vildum að þarna yrði til félagsauður auk útivistarperlu. Þarna varð á vegi mínum margt gott fólk sem er mér innblástur í starfi í dag.“. 

Árni fór seinna til Dalvíkur sem íþrótta og tómstundafulltrúi en þaðan lá leiðin aftur til Reykjavíkur og nú í Árbæinn til starfa hjá íþróttafélaginu Fylki og í Árbæjar- og Grafarvogslaug. Því næst fór hann að vinna í Árseli.

Ársel, líkt og aðrar frístundamiðstöðvar, er meðal fyrirmyndarstofnana í könnunum Sameykis. Hver er galdurinn á bak við starfsgleðina hjá frístundamiðstöðvunum? „Það felst í hlutverki okkar að búa börnum og unglingum skemmtilegan og innihaldsríkan dag. Við höfum frelsi til að laga okkur að aðstæðum og við höfum leyfi til að vera alls konar.  Þetta á sér líka sögu í menningu gömlu félagsmiðstöðvanna en á milli þeirra var hörð samkeppni sem var þó byggð á leikgleði og húmor. Ein félagsmiðstöð lét prenta á boli „Allir vinir“ og önnur svaraði með bolum sem á stóð „Við erum ekkert verri en hinir“. Það er hluti af okkar vinnumenningu að huga vel að starfsfólki og leggja áherslu á vellíðan á vinnustað,“ segir Árni. Hann kveðst hreykinn af því að vera starfsmaður Reykjavíkurborgar og að hjá borginni vinni gott og metnaðarfullt starfsfólk.

Árni býr með fjölskyldu sinni og þremur börnum í Mosfellsbæ en konan hans er þaðan.  Hann segist eiga mörg áhugamál: „Ég ver frítímanum klárlega mest í hluti eins og matreiðslu á heimilinu, hlusta endalaust á tónlist og hlaðvörp, sem er nýr heimur af tómri gleði. Þá horfi ég full mikið á ensku knattspyrnuna, sem er drjúgur tímaþjófur og svo er ég að taka fyrstu skrefin í hjólaþjálfa í bílskúrnum. Ég var öflugur samgönguhjólari en það hefur aðeins legið í dvala undanfarin ár og mig langar að dusta rykið af því aftur,“ segir Árni og brosir breitt. 

#fólkiðokkaríborginni  #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni