Aukin þátttaka í félagsmiðstöðvarstarfi og sumarstarfi frístundaheimilanna.
Tillögur starfshóps um frekari innleiðingu á Stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025, voru kynntar í skóla- og frístundaráði 25. maí. Hópurinn leggur til þrjár megintillögur:
- Að auknu fjármagni verði veitt í verkefni sem þegar hafa verið innleidd út frá stefnunni en eru ekki enn full fjármögnuð
- Að setja af stað stýrihóp sem skilgreini hlutverk frístundamiðstöðva í borgarhlutunum í samræmi við Græna planið, hverfisskipulag, menntastefnu, frístundastefnuna og áherslur á lýðheilsu og félagsauð.
- Að stefna áfram að heilsársreknum frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum.
Fleiri heimsækja félagsmiðstöðvarnar
Hópnum var jafnframt ætlað að meta árangur af innleiðingu á stefnu um frístundaþjónusu sem þegar hefur farið fram. Í matinu kemur m.a. fram að þátttaka 10 -16 ára í félagsmiðstöðvum borgarinnar hefur aukist töluvert samhliða auknu starfi 10-12 ára barna, opnun öll föstudagskvöld fyrir unglinga og einstaklingsmiðuðum stuðningi í félagsmiðstöðvunum. Þá hefur þátttaka í sumarstarfi frístundheimilanna fyrir 6-9 ára börn aukist samhliða því að öll frístundaheimilin eru nú opin á sumrin.
Þá sýndi könnun um störf frístundafræðinga fram á góðan árangur við að styðja við fagstarf og forvarnarstarf í frístundaheimilum og grunnskólum með börnum í 1.-4. bekk.