Staða framkvæmda við Fossvogsskóla 11. október 2021

Skóli og frístund

""

Skólastarf í Fossvogsskóla mun allt fara fram í Fossvogsdal haustið 2022. Börn munu stunda nám í tveimur uppgerðum byggingum, Austurlandi, og Vesturlandi, og að hluta til einnig í  einingarhúsum á lóð skólans. Áætlað er að framkvæmdum við Meginland ljúki haustið 2023.

Staða framkvæmda við uppfærslu á Fossvogsskóla var rædd á fundum með skólasamfélaginu í dag, mánudaginn 11. Október. Fulltrúar skóla og frístundasviðs og umhverfis og skipulagssviðs ásamt fulltrúa verkfræðistofunnar Eflu funduðu með starfsfólki og skólaráði á tveimur fundum síðdegis og héldu einnig opinn fund fyrir foreldra síðdegis þar sem staða verksins var kynnt og farið yfir fyrirkomulag á skólastarfi næstu misseri.

Mikið verk hefur verið unnið við undirbúning framkvæmda og hönnun síðustu mánuði eins og Ámundi Brynjólfsson skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg og Sylgja Sigurjónsdóttir hjá verkfræðistofunni Eflu fóru yfir á fundunum. Vinna við hönnun er langt komin en þar ber hæst ítarleg úttekt á innivist í skólabyggingunum og hönnun á nýju loftræstikerfi og utanhússklæðningu. Þá er vinna að klárast við aðra hönnun og rannsóknir á byggingarefni og öðru sem miðar að því að þessi vinna skili heilnæmu og góðu húsnæði fyrir skólastarf í hverfinu til frambúðar. Unnið er í samstarfi við Verkís, Eflu, og Helgu Gunnarsdóttur arkitekt. Á fundinum með foreldrum sagði Sylgja að vissulega hefði þessi hönnunarvinna tekið tíma en hún bætti við að verkefnateymið væri sammála um að þessi tími hafi skilað betri niðurstöðu til framtíðar. 

Framundan eru stór verkefni

Fossvogsskóli hélt í síðustu viku upp á hálfrar aldar afmæli sitt og framundan eru stór verkefni. Einangrun innan á útveggjum verður fjarlægð í Vestur og Austurlandi, þær verða einangraðar að utan og klæddar með álklæðningu. Allir gluggar og útihurðir verða endurnýjaðar og lokið við að endurnýja öll þök. Ennfremur verða innveggir fjarlægðir og endurbyggðir í samræmi við gildandi eldvarnarkröfur, raflagnir og pípulagnir verða endurnýjaðar sem og loftaefni og gólfefni. Loftræsting allra húsa verður yfirfarin og virkni breytt með tilliti til bættrar innivistar. Þá er unnið að breyttu innra skipulagi á húsnæðinu svo byggingarnar henti betur fyrir nútíma kröfur í kennslufræði. 

Skólastarf allt í Fossvogi haustið 2022

Í vetur verður skólastarf á tveimur stöðum þar sem 1.- 4. bekkur stundar nám í færanlegum skólastofum á lóð Fossvogsskóla og börn í 5. - 7. bekk fara með rútum í Korpuskóla. Foreldrar lýstu yfir óánægju með fyrirkomulag rútuaksturs og verða þau mál skoðuð og leitað hugmynda til að bæta þar úr sem fyrst. Haustið 2022 er stefnt að því að kennsla allra árganga fari fram í Fossvogi þó að framkvæmdum ljúki ekki að fullu fyrr en ári seinna.