Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá sorphirðu Reykjavíkurborgar. Bætt var við hirðudegi síðastliðinn sunnudag til að búa í haginn fyrir jólaannirnar. Stefnt er að því að hirða fyrir jólin klárist á Þorláksmessu ef veður leyfir og þá verði búið að tæma öll ílát sem voru á áætlun á aðfangadag. Sama fyrirkomulag verður haft varðandi hirðu fyrir áramót, það er að hún klárist fyrir gamlársdag.
Vanda þarf frágang á sorpi við heimili vegna sóttvarna. Til að koma í veg fyrir smit starfsmanna vill Reykjavíkurborg leggja áherslu á að allur blandaður úrgangur sé hafður í pokum. Ekki má yfirfylla tunnur, þær þurfa að vera lokaðar svo starfsmenn komist ekki í snertingu við úrgang við losun eða hann falli úr ílátum.
Íbúar geta lagt sitt af mörkum til að flýta fyrir hirðunni þannig hægt verði að þjónusta alla með því að tryggja gott aðgengi að tunnum.
Hvað þarf að hafa í huga?
- Flokka vel allan úrgang og nýta plássið í tunnunum vel.
- Ekki má yfirfylla tunnur, þær þurfa að vera lokaðar svo starfsmenn komist ekki í snertingu við úrgang við losun eða hann falli úr ílátum.
- Í fjölbýli þarf að huga að því að skipta um tunnur þar sem eru rennur til þær stíflist ekki og passa að úrgangur fari ekki fram á gólf.
- Ef útlit er fyrir snjókomu þarf að huga að aðgengi og moka frá tunnum og geymslum til að tryggja að gönguleiðir séu greiðar og hálkuvarðar.
- Huga þarf að fyrirstöðum sem koma í veg fyrir að hægt sé að losa tunnur, til dæmis geta illa lagðir bílar hindrað aðgang sorphirðufólks að ílátum.
- Hægt er að fara með allt umframsorp á endurvinnslustöðvar Sorpu og flokkað efni á grenndarstöðvar.
- Minnum á að flugeldaleifum er hægt að skila á marga sölustaði flugelda í borginni eða á endurvinnslustöðvar Sorpu.
Hugum að umhverfisvænna jólahaldi
Umhverfisvænn jólaundirbúningur hefur mikið að segja og dregur úr úrgangi um hátíðirnar. Það eru fjölmargar leiðir færar til þess að draga úr úrgangi í undirbúningi jólanna og yfir hátíðirnar sjálfar. Mikilvægast er að reyna að endurnýta sem mest til þess að minnka þá sóun að kaupa einnota hluti sem eru aðeins notaðir í örfáar klukkustundir.
Rafrænt sorphirðudagatal
Minnt er á þjónustu 57 grenndarstöðva í borginni sem eru alltaf opnar og þar er hægt að skila flokkuðu plasti, pappír og gleri. Í Árbæjarhverfi eru einnig gámar fyrir málma og sömuleiðis á nýjum grenndarstöðvum með djúpgámum við Freyjutorg, Laugalæk og Skúlagötu. Ef þörf krefur er einnig hægt að fara með alla flokka úrgangs á endurvinnslustöðvar Sorpu.
Upplýsingar um hirðudaga, næstu grenndarstöð og stystu leið þangað má finna á rafrænu sorphirðudagatali á vef Reykjavíkurborgar. Þangað verða líka settar inn sérstakar tilkynningar frá sorphirðunni.
Takk fyrir að flokka og gleðileg jól!