Verið er að ganga frá samningum um tímabundið húsnæði fyrir kennslu 8. bekkjar Hagaskóla á meðan endurbætur fara fram á norðaustur álmu skólans. Unnið er eftir nýjum verkferlum Reykjavíkurborgar um rakaskemmdir eða myglu og var brugðist hratt við ábendingum um slæma innivist.
Eftir að skólastjórnendum Hagaskóla bárust í október s.l. ábendingar um að tilefni væri til að kanna gæði innivistar í norðaustur álmu var strax kallað eftir aðstoð sérfræðinga til að rannsaka húsnæðið. Loftræstikerfi var tekið út og hreinsað og þá voru tekin sýni úr gólfi og múr.
Í gær, miðvikudaginn 17. nóvember bárust frumniðurstöður frá verkfræðistofunni Eflu sem sýna að mygla greinist í múr þar sem hefur verið leki. Unnið er samkvæmt nýjum verkferlum sem fara í gang um leið og grunur beinist að rakaskemmdum eða myglu og voru niðurstöðurnar strax kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki. Ákveðið var að engin kennsla myndi fara fram í þessum hluta húsnæðisins þar til endurbætur hafa farið fram, og því ekki um annað að ræða en að kennsla yrði felld niður í 8. bekk í dag, fimmtudag á meðan áætlanir væri gerðar um framhaldið.
Samstilltur hópur kennara tókst á við þessa áskorun í morgun, hóf undirbúning flutninga og skipulagði spennandi dagskrá fyrir börnin á morgun. Þau munu fara í vettvangsferðir á söfn víðs vegar um borgina á morgun en stefnt er að því að kennsla hefjist í nýju húsnæði á mánudag.
Þegar er byrjað að undirbúa framkvæmdir þó enn sé verið að vinna að endanlegri áætlun. Fundað verður með starfsfólki á morgun þar sem sérfræðingar munu fara yfir stöðuna á húsnæðinu og það sem er framundan.