Nemendur Fossvogsskóla munu flytjast í Korpuskóla í Grafarvogi á miðvikudag 24. mars, en ákveðið var að bæta við starfsdegi á morgun til að undirbúa komu þeirra í skólann sem best.
Upp hefur komið umræða um heilnæmi húsnæðis Korpuskóla og voru fréttir sagðar af því í fjölmiðlum í dag í kjölfar vettvangsferðar starfsfólks og skólaráðs Fossvogsskóla í Korpuskóla í liðinni viku. Í kjölfarið var því farið í ítarlega rýni á sögu byggingarinnar. Aflað var upplýsinga frá fasteignastjóra byggingarinnar á umhverfis- og skipulagssviði, frá fyrrum skólastjórnendum og umsjónarmanni fasteignar Korpuskóla sem hefur starfað við skólann frá upphafi.
Reykjavíkurborg vill af gefnu tilefni koma eftirfarandi á framfæri.
Staðan á húsnæðinu
- Aldrei hefur greinst mygla í byggingu Korpuskóla.
- Engar kvartanir, ábendingar eða athugasemdir hafa borist vegna rakaskemmda eða loftgæða í Korpuskóla frá árinu 2018 þegar upp kom leki í húsnæðinu.
Saga byggingarinnar
- Árið 2005, á framkvæmdatíma skólans, kom vatn í loftaplötur í kjölfar leka og var lekinn strax upprættur.
- Árið 2008 kom upp mygla í færanlegum kennslustofum á lóð skólans og sama ár voru kennslustofurnar fjarlægðar af lóðinni og þeim fargað.
- Árið 2017 kom upp leki í byggingunni og framkvæmdum vegna hans lauk sama ár.
- Eftir að framkvæmdum lauk var verkið tekið út af fagaðilum með þeirri niðurstöðu að ekki væri um myglu í húsnæðinu að ræða.
- Raki getur komið upp í eignum borgarinnar fyrirvaralaust líkt og í öðrum mannvirkjum. Ef ábendingar koma um raka er strax brugðist við þeim.
- Þá skal þess getið að Korpuskóla hefur verið haldið við, líkt og öðrum eignum borgarinnar í gegnum árin.
Framkvæmdir nú um helgina
- Um helgina var unnið að lagfæringu sýnilegra rakaskemmda í loftaklæðningu í íþróttahúsi og áhaldageymslu þess.
- Um helgina var unnið að því að mála valin svæði í Korpuskóla.
- Um helgina var Korpuskóli þrifinn hátt og lágt.
Skólaráð Fossvogsskóla hefur farið fram á að fá ítarlegri upplýsingar um byggingu Korpuskóla og er það í vinnslu.