Skólaárið framundan í Fossvogsskóla

Skóli og frístund

""

Kröftugt og fjölbreytilegt skólastarf verður sem fyrr í Fossvogsskóla þar sem kennt verður á tveimur stöðum næsta vetur, en góður gangur er á umfangsmiklum framkvæmdum við skólann.

Borgarráð samþykkti fyrr í sumar tillögur að tilhögun skólastarfs á næsta vetri sem unnar voru í samráði við skólasamfélagið. Kennsla í 5. til 7. bekk mun fara fram í Korpuskóla á meðan 1. til 4. bekkur mun stunda nám í Fossvogi. 

Rútuferðir verða á milli Fossvogsskóla og Korpuskóla að morgni og við skólalok. Framkvæmdir hafa staðið yfir í Korpuskóla í sumar og hefur verið unnið eftir tilmælum og undir eftirliti verkfræðistofunnar Eflu. Kennsla fyrir yngri bekkina verður í Fossvogi næsta vetur. Tíu eininga byggingar sem er verið að breyta í skólastofur með aðstoð  sérfræðingateymis verða settar upp þar sem bílastæði starfsfólks er nú. Grenndarkynning er á lokastigum og önnur skipulagsmál að klárast. Viðræður standa yfir á milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Víkings um að kennsla í 2. til 4. bekk verði þar fyrstu vikurnar. Fyrsti bekkur mun hefja nám í Útlandi, í húsnæði Frístundar. Vonast er til að hægt verði að færa kennslu í einingahúsin um miðjan september. Skólasund verður áfram í Laugardalslaug eins og verið hefur.

Mikið og þétt samráð hefur verið í sumar á milli umhverfis- og skipulagssviðs, skóla- og frístundasviðs og skólastjórnenda Fossvogsskóla um leiðir í skólastarfinu á fyrstu vikum skólaársins. „Það er mikill hugur í okkar frábæra starfsfólki og vilji allra stendur til þess að skólastarfið verði eftir sem áður kröftugt og fjölbreytilegt þar sem þeim hæfniviðmiðum sem aðalnámskrá leggur til grundvallar í námi verður mætt,” segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir skólastjóri Fossvogsskóla.