Skóla- og frístundastarf hefst með tilslökunum á sóttvörnum

Covid-19 Skóli og frístund

""

Nokkrar breytingar verða á skólastarfi í upphafi árs vegna breyttrar reglugerðar um sóttvarnir.

Í leikskólum geta starfsmenn nú farið á milli barnahópa og 20 fullorðnir einstaklingar verið í sama rými en með grímur ef ekki er hægt að tryggja 2 metra nálægðarmörk. Sú regla gildir áfram að foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma inn í skólabyggingar nema nauðsyn beri til.

Í grunnskólunum mega líka 20 fullorðnir einstaklingar vera í sama rými, og gildir þar líka 2 metra nálægðartakmörkun og grímunotkun að öðrum kosti. Starfsfólki er heimilt að fara á milli nemendahópa. Nemendur 1-10 bekk eru undanþegnir tveggja metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu.

Heimilt er nú að 50 nemendur séu í sama rými innandyra og blanda má nemendum á milli hópa. Gestakomur í skóla eru takmarkaðar við nauðsyn.

Sömu reglur gilda í frístundastarfinu og í grunnskólunum, svo og í skipulögðu íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi grunnskólabarna.

Arndís Steinþórsdóttir skólastjóri í Háteigsskóla segir þessar tilslakanir mjög ánægjulegar. Mestu skipti að nú megi nemendur blandast og einnig sé hægt að hefja kennslu í valgreinum ásamt því að hægt verði nú að bjóða nemendum hádegismat í mötuneyti í stað þess að matast í kennslustofum.

„Þetta er því stór áfangi í skólastarfinu í vetur, þar sem nemendur hafi sýnt mikið æðruleysi og dug í erfiðuðum aðstæðum.“  

Sjá gildandi reglugerð um takmarkanir á skólastarfi vegna farsóttar