Nokkrir einstaklingar lýstu reynslu sinni af vinnu- og virkniúrræðum á Velferðarkaffi – morgunfundi velferðarráðs í morgun. Þar var farið yfir fjölbreytt verkefni á velferðarsviði sem miða að því að aðstoða fólk sem fær fjárhagsaðstoð við aukna virkni og atvinnuleit. Viðburðinum var streymt á Facebook-síðu velferðarsviðs.
Nokkur þróun á sér nú stað á þeim vinnu- og virkniúrræðum sem standa einstaklingum sem fá fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til boða. Þörfin á fjölbreyttum úrræðum er mikil, ekki síst vegna erfiðs atvinnuástands í kjölfar Covid-19. Fólki sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu hefur fjölgað. Notendur fjárhagsaðstoðar voru 1325 í lok desember 2020 en þeir voru rétt rúmlega 1000 í janúar 2019. Notendum hefur því fjölgað um 23% á tímabilinu og hefur þeim fjölgað í öllum aldurshópum.
Flest þeirra sem fram komu á Velferðarkaffi í morgun hafa sjálf reynslu af atvinnuleysi eða því að fá starf í gegnum vinnu- og virkniúrræði velferðarsviðs og gátu því deilt reynslu sinni af því.
Mikilvægt að muna að góðir hlutir gerast hægt
IPS er starfsendurhæfing fyrir fólk sem hefur ekki verið á vinnumarkaði í langan tíma og þarf stuðning til að komast þangað. Gunnar Þorsteinsson starfar sem IPS-ráðgjafi á velferðarsviði og nýtir í starfi sínu eigin reynslu en hann var atvinnulaus um tíma og kom til starfa hjá Reykjavíkurborg í gegnum Vinnumálastofnun. Hann sagði mikilvægt að mæta fólki þar sem það er statt og hjálpa einstaklingum að byggja upp sjálfstraust sitt eftir langtímaatvinnuleysi. Það gerist ekki á einum degi. „Viðkomandi þarf að taka skrefin sjálfur en hann þarf að fá góðan og þéttan stuðning – og það þarf að gefa ferlinu tíma.“
Gunnar þekkir það á eigin skinni hvernig atvinnuleysi getur skaðað sjálfstraustið. „Ég man eftir einu kvöldi þegar það helltist yfir mig djúpur kvíði. Ég fann að ég treysti mér ekki til að fara að vinna, fannst ég hafa misst það og styrkleikar mínir farnir. Vanvirknin var að mölbrjóta mig niður og ég fann að ég varð að gera eitthvað,“ rifjar hann upp. „Það skiptir máli að vera hluti af hópi og hafa hlutverk í lífinu.“ Hann ítrekaði mikilvægi þess að gefa ferlinu tíma, muna að góðir hlutir gerast hægt og fagna litlu skrefunum, því: „Öll litlu skrefin á leiðinni geta gjörbreytt lífi einstaklingsins.“
„Þakklát fyrir að vera partur af samfélaginu sem ég var búin að útskrifa mig út úr“
Bataskólinn býður upp á úrval af námskeiðum fyrir fullorðið fólk með geðrænar áskoranir. Sigrún Sigurðardóttir starfar þar í dag og hefur komið að uppbyggingu fjölda námskeiða. Hún var áður sjálf þátttakandi í verkefninu Grettistaki, sem er úrræði á velferðarsviði sem sniðið er að þörfum félagslega einangraðs fólks. Þar byrjaði hún árið 2011 og sá ekki endilega fyrir sér að verða nokkurn tímann þátttakandi á vinnumarkaði. Hún glímdi við veikindi á tímabilinu og er þakklát því að hafa fengið að halda sínu plássi á námskeiðinu, þrátt fyrir að hafa stundum átt erfitt með að mæta á morgnana. „Grettistak var frábært og ég komst að því að ég hafði bara gaman af því að sitja í tímum og læra,“ segir hún.
Eftir að hún útskrifaðist úr Grettistaki hélt hún áfram að mæta sem sjálfboðaliði. Þegar Bataskólinn varð til árið 2017 sótti hún um þar og fékk starf sem jafningjafræðari. Síðan hefur hún komið að uppbyggingu fjölda námskeiða. „Í Bataskólanum tökum við á móti fólki sem passar ekki inn í önnur úrræði en líka fólki sem er í öðrum úrræðum. Fólki sem hefur ekki gert neitt í mörg ár og fólki sem er í fullri vinnu. Það er fallegt að sjá hvernig hópurinn tekur sig saman og verður að einni heild. Þetta er æðislegt og gefandi starf. Að hafa eitthvað að gera og vera virkur i samfélaginu skiptir ofsalega miklu máli. Ég er þakklát fyrir að vera partur af samfélaginu sem ég var búin að útskrifa mig út úr.“
Nýjasta úrræðið sniðið að þörfum arabískumælandi íbúa
Auk þeirra Gunnars og Sigrúnar fluttu þau Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu á velferðarsviði, Kinan Kadoni, ráðgjafi í vinnumarkaðsúrræðum og Aurike Grabauskiene, starfsmaður á þjónustumiðstöð Breiðholts erindi en Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, var fundarstjóri. Meðal annars var farið yfir önnur virkniúrræði sem standa notendum fjárhagsaðstoðar til boða en þau eru sniðin að þörfum ólíkra hópa. Má þar til dæmis nefna Karla- og Kvennasmiðjur, sem ætluð eru fólki með langvarandi félagslegan vanda og verkefnið Tinnu en í gegnum það er unnið með einstæðum foreldrum og börnum þeirra. Loks má nefna nýjasta verkefnið Starfabrú sem er 4–6 vikna námskeið fyrir arabískumælandi notendur fjárhagsaðstoðar, þar sem þátttakendur fá leiðbeiningar, stuðning við atvinnuleit, samfélagsfræðslu og íslenskukennslu.