Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ í Viðey

Mannlíf Íþróttir og útivist

""

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið í Viðey á morgun, laugardaginn 11. september, kl. 13:30. Hlaupaleiðin er öðruvísi en hlauparar eiga að venjast en eftir sem áður njóta þátttakendur útsýnis og sjávarlofts á leiðinni.

Siglt verður frá Skarfabakka kl. 13:15 og hlaupið ræst frá túninu fyrir neðan Viðeyjarstofu kl. 13:30. Hægt verður að velja um tvær hlaupaleiðir, 3 km og 7 km. Hlaupaleiðin verður stikuð alla leið og auðvelt að rata. Að stórum hluta til er hlaupið eftir grasi vöxnum slóða meðfram strandlínunni og er leiðin því mjúk undir fæti.

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er orðinn fastur liður í lífi margra kvenna enda er hlaupið holl hreyfing og um leið kjörið tækifæri til að upplifa samkennd og ánægjulega samveru kynslóðanna.

Viðeyjarstofa verður opin og þar er hægt að kaupa veitingar við allra hæfi en einnig minnum við á útigrill sem öllum er frjálst að nota, aðeins þarf að taka með sér kol og grillmat.

Athugið að þátttökugjald í hlaupið þarf að greiða inni á www.tix.is fyrir þá sem vilja fá nýjan bol en þeir sem kjósa að hlaupa í bol frá fyrri hlaupum greiða 1.500 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn. Allir þátttakendur í hlaupinu fá afslátt á ferjumiðann og greiða því 1.500 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn 7-15 ára. Börn undir 6 ára aldri sigla frítt. Hægt er að greiða fyrir allt saman í miðasölu Eldingar á Skarfabakka.