Sjö nýir stjórnendur í Betri borg fyrir börn

Velferð Skóli og frístund

""

Gengið hefur verið frá ráðningum sjö nýrra stjórnenda vegna flutnings skóla- og frístundaþjónustu út í nærumhverfi barna og ungmenna.  

Eftirfarandi stjórnendur hafa verið ráðnir og taka til starfa um áramótin næstu: 

Ólafur Brynjar Bjarkarson hefur verið ráðinn skrifstofustjóri leikskólahluta á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs í Borgartúni 12-14. 

- Ólafur Brynjar lauk B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands árið 2009 og M.Ed. í stjórnun menntastofnanna árið 2014 frá sama skóla. Ólafur starfaði sem verkefnastjóri og deildarstjóri barnasviðs hjá Frístundamiðstöðinni Kampi á árunum 2004 til 2011. Ólafur var aðstoðarleikskólastjóri árin 2011 til  2014 og tók við starf leikskólastjóra á Leikskólanum Hagaborg árið 2014.

Valborg Hlín Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri leikskólahluta í þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. 

- Valborg Hlín lauk B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands árið 1998 og meistaragráðu í Fjölskyldumeðferð árið 2012 frá sama skóla. Valborg hefur áralanga reynslu af leikskólastjórn hjá Reykjavíkurborg og hefur starfað sem leikskólastjóri frá árinu 2001, fyrst á leikskólanum Engjaborg og árið 2017 tók hún við Leikskólanum Langholti.

Ingibjörg Kristleifsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri leikskólahluta í þjónustumiðstöð Árbæjar, Grafarholts, Grafarvogs og Kjalarnes.

- Ingibjörg lauk námi í Fóstruskóla Íslands og lauk diplóma í stjórnun í framhaldsdeild frá sama skóla. Hún hefur einnig lokið Dipl. Ed. í uppeldis- og menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands. Ingibjörg hefur stundað meistaranám í stjórnun og forystu við Háskólann á Bifröst. Ingibjörg starfaði sem leikskólastjóri á árunum 1988-2008 en þá hóf hún starf hjá Kennarasambandi Íslands.

Gyða Guðmundsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri leiksskólahluta í þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.

- Gyða lauk B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands árið 2002. Einnig hefur hún lokið Dipl. Ed. í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun menntastofnana og er að ljúka M.Ed. í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands. Gyða hefur áralanga reynslu af störfum í leikskólum, fyrst sem leiðbeinandi síðan deildarstjóri. Frá árinu 2008 tók Gyða við starfi aðstoðarleikskólastjóri og árið 2017 tók hún við sem leikskólastjóri á Leikskólanum Borg.

Stefanía Helga Ásmundsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri grunnskólahluta í þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. 

- Stefanía lauk B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2010 og hefur stundað nám til MA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við sama skóla. Stefanía hefur verðið skólastjóri frá árinu 2013 bæði á Þingeyri og í Bolungarvík. Einnig hefur Stefanía starfað sem sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar á árunum 2019-2021. Síðastliðna mánuði hefur Stefanía starfað sem kennsluráðgjafi í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis.

Klara Eiríka Finnbogadóttir hefur verið ráðin fagstjóri grunnskólahluta í þjónustumiðstöð Árbæjar, Grafarholts, Grafarvogs og Kjalarnes.

- Klara lauk B.Ed. gráðu í Kennarafræðum við Háskólann á Akureyri og M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana frá Háskóla Íslands. Klara lauk einnig MS gráðu í mannauðsstjórnun í haust frá sama skóla. Klara starfaði í Ölduselsskóla bæði sem kennari og aðstoðarskólastjóri á árunum 2000-2012. Síðastliðin 9 ár hefur Klara starfað hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem sérfræðingur í skólamálum og tekið þátt í fjölmörgum nefndum og ráðum sem hafa það markmið að bæta árangur og gæði skólastarfs um land allt.

Svandís Egilsdóttir hefur verið ráðin fagstjóri grunnskólahluta í þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. 

- Svandís lauk námi sem myndlistarkennari frá Danmörku og er með leyfisbréf til kennslu í grunnskóla. Einnig hefur Svandís lokið MA gráðu í þjóðfræði og er að ljúka M.Ed. gráðu í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands. Svandís hefur starfað sem kennari og verið skólastjóri frá árinu 2013. Fyrst í Grunnskóla Borgarfjarðar og síðan sem skólastjóri Seyðisfjarðarskóla.

Verkefnið Betri borg fyrir börn miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Þetta verður gert  með því að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar. Einnig með betri stuðningi við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og með því að færa stjórnun stofnana nær vettvangi. 

Nýjum stjórnendum er óskað velfarnaðar í starfi.