Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til að innleiða tvo alþjóðlega ISO staðla sem mæla sjálfbærni borga. Staðlarnir eru samansettir af fjölda mælikvarða sem gefa mynd af stöðu borgarinnar hverju sinni.
Árlegar uppfærslur gera borginni kleift að fylgjast með árangri sínum og þróun í átt að sjálfbærara samfélagi. Ávinningur verkefnisins er því margvíslegur og mun Reykjavíkurborg m.a. geta borið niðurstöður sínar saman við aðrar borgir og séð hvað vel er gert og hvað má betur fara.
Tveir staðlar eru innleiddir á þessu ári, ISO 37120 og ISO 37122. Sá fyrri mælir þjónustuveitingu borgarinnar og lífsgæði íbúa hennar og er grunnur að næstu stöðlum. Þeirri innleiðingu er að ljúka og hefst þá gagnasöfnun fyrir seinni staðalinn sem mælir snjallvæðingu borgarinnar. Hann mælir m.a. stöðu stafræns aðgengis íbúa að þjónustu og upplýsingum, stöðu hringrásarhagkerfisins, samgangna og margt fleira.
Reykjavíkurborg hefur verið boðið að vera í hópi fyrstu borga til þess að innleiða þennan snjallborgarstaðal. Það eru alþjóðlegu samtökin World Council on City Data (WCCD) sem aðstoða borgina við þessa vinnu. Að gagnasöfnun lokinni mun borgin öðlast vottun frá samtökunum eftir því hversu margir mælikvarðar verða mældir.
Græna planið er sú framkvæmd sem vegur þyngst í þróun Reykjavíkurborgar til sjálfbærni. Hún byggir á skýrri framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag. Græna planið snýst um öfluga fjárfestingaráætlun í grænum samgöngum, innviðum, hverfum, nýsköpun og störfum sem munu gegna lykilhlutverki í því að auka lífsgæði fólks í borginni auk þess að gera Reykjavík að betri stað til að búa og starfa. Meðal aðgerða sem nú standa yfir má nefna þéttingu byggðar, Borgarlínu, stuðning við vistvænar samgöngur og stafræna þróun í þjónustu borgarinnar. Mælikvarðar í bæði ISO 37120 og ISO 37122 verða notaðir að hluta við árangursmælingar tengdar Græna planinu.
Mælikvarðarnir munu einnig koma að gagni við stöðutöku og árangursmælingar sem tengjast Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna, en Heimsmarkmiðin voru samþykkt árið 2015 af 196 löndum sem sameiginleg aðgerðaráætlun fyrir sjálfbærari heim. Heimsmarkmiðin eru umgjörð um sjálfbærni og samfélagsábyrgð og munu niðurstöður ISO mælinganna vinna með og skýra stöðu borgarinnar með tilliti til þeirra.
Að sögn Dr. Patricia McCarney, framkvæmdastýru og forseta WCCD, er það þeim sönn ánægja að geta boðið Reykjavíkurborg í hóp fyrstu borga sem innleiða snjallborgarstaðalinn ISO 37122. Hún fagnar því að borgin hafi skuldbundið sig að því að innleiða þessa stöðluðu mælikvarða sem er hannaðir til þess að efla stafræna og íbúamiðaða þjónustu við borgara sína. Mælikvarðarnir aðstoða borgina á vegferð sinni að sjáfbærri snjallborg. Hún vonast til þess að geta fagnað niðurstöðum Reykjavíkurborgar í eigin persónu.