„Sennilega er ljóðalestur voða góður fyrir heilann“

Velferð Menning og listir

""

Meðlimir Framsagnarhóps Soffíu hittast á hverjum miðvikudegi í félagsmiðstöðinni Hæðargarði og lesa ljóð sér til heilsubóta. Það hafa þeir gert í tíu ár og segja það bæði skemmtilegt og gefandi. 

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því hvernig hlutir eru sagðir, að innihaldið komist til skila. Ég lærði leiklist hjá Leikfélagi Reykjavíkur og var þar í um 40 ár. En ég er vaxin upp úr því,“ segir Soffía Jakobsdóttir, sem leiðir Framsagnarhópinn, og hlær.  

Soffía verður 82 ára í ár og hefur sjálf verið mjög virk í félagsstarfi. Framsagnarhópurinn hittist vikulega í félagsmiðstöðinn í Hæðargarði, flytur ljóð og rýnir í þau. Hópsmeðlimir eru eldri borgarar og er hópurinn búinn að vera starfræktur í rúm 10 ár. 

„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og gefandi. Ég læt þau yfirleitt velja sér ljóð sjálf, stundum læt ég þau velja sér þema og stundum tökum við fyrir eitthvert sérstak skáld. Nú síðast tókum við ljóð Þuríðar Guðmundsdóttur fyrir. Það er langt síðan ég kynntist henni, þegar hún Vigdís Finnbogadóttir var leikhússjóri í Iðnó. Hún þekkti þessa konu og sýndi okkur ljóðin hennar. Mér þótti þau óskaplega falleg og ég keypti mér bók. Hún hefur alltaf fylgt mér þessi bók.“

Í vor tók hópurinn ákvörðun um að taka upp myndbönd af flutningi ljóðanna. „Ég las eitthvert ljóð fyrir hópinn og það voru svo margar sem urðu hrifnar og fóru að skoða ljóðin hennar Þuríðar. Við ákváðum svo að gera smá prógramm. Það er voða gaman að skoða bækurnar hennar. Hún hefur greinilega verið þyngri á einu tímabili heldur en öðru. Mér finnst ljóðin hennar fjalla um mannleg samskipti og hversdags líf manneskjunnar.“

Aðspurð hvers vegna fólk ætti að lesa og flytja ljóð svarar Soffía létt í lund: „Sennilega er ljóðalestur voða góður fyrir heilann.“

Alla miðvikudaga í sumar birtist ljóð eftir Þuríði, í flutningi meðlima Framsagnarhóps Soffíu, á Facebook-síðu velferðarsviðs. Fylgist endilega með!