Samstarf um vistvæna húsnæðisþróun

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Við vonumst eftir að sjá fjölbreytt teymi með fjölbreyttar lausnir, segja Hulda Hallgrímsdóttir og Hilmar Hildar Magnúsarson, en þau eru verkefnastjórnar fyrir Grænt húsnæði framtíðarinnar – samstarfsverkefni sem Reykjavíkurborg efnir til. Auglýstar hafa verið fimm lóðir fyrir vistvæna húsnæðisþróun og þurfa áhugasamir aðilar að skila inn umsókn í síðasta lagi 22. desember.

Lóðirnar eru víða um borgina: á Veðurstofureit, við Frakkastíg, við Arnarbakka og tvær við Völvufell í Breiðholti. Þær eru mislangt komnar í skipulagsferli sem gefa mismunandi möguleika að koma inn í skipulagsferlið.  Gert er ráð fyrir 20 til 80 íbúðum á hverri lóð. Fjórar lóðanna eru boðnar á föstu verði, en á þeirri fimmtu munu verð vega í mati umsókna.

Stöndum við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum

  „Grænt húsnæði framtíðarinnar snýst um að minnka þann skaða sem búseta okkar og byggingariðnaður veldur jörðinni,“ segir Hilmar. „Þetta snýst einfaldlega um að við stöndum við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum og að við vinnum að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á sviði efnahags, samfélags og umhverfis“.  Þær áherslur falli einnig vel að meginmarkmiðum Græna plansins, sem er sóknaráætlun Reykjavíkur.

Hulda segir mikilvægt að huga að því úr hverju sé verið að byggja og hvernig. Orkan skipti einnig máli því hún sé ekki óþrjótandi auðlind.  „En auðvitað er notandinn mikilvægastur. Við viljum búa til gott íbúðarhúsnæði fyrir íbúa Reykjavíkur“ segir hún.

Upplýsingar aðgengilegar á vef  

Nokkrir aðilar hafa þegar haft samband til að fá nánari upplýsingar og eru þau Hilmar og Hulda vongóð um góða þátttöku. Þau munu miðla svörum við spurningum sem berast inn á vefsíðu verkefnisins – reykjavik.is/graenthusnaedi – en þar er nú þegar ítarleg lýsing á samkeppninni, lóðalýsingar og skilyrði sem sett eru. Þar liggur einnig fyrir á matsblaði hvernig umsóknir verða metnar.

Tengt efni: