Samningur við Ás styrktarfélag verður endurnýjaður

Velferð

""

Borgarráð samþykkti í gær þjónustusamning við Ás styrktarfélag sem gildir til ársins 2025. Í heild veitir félagið um 240 Reykvíkingum þjónustu í formi búsetu, sérhæfðrar þjónustu við börn og vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu. 

Reykjavíkurborg hefur samið við Styrktarfélagið Ás um ýmsa þjónustu við fatlað fólk allt frá því að málefni fatlaðs fólks voru flutt frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði, er ánægð með að samningur við félagið hafi verið endurnýjaður. „Við höfum mjög góða reynslu af samstarfi við styrktarfélagið Ás. Þjónustan sem við kaupum af félaginu er þríþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk. Í öðru lagi vinnu- og virknimiðaða stoðþjónustu. Í þriðja lagi er það sérhæfð leikskólaþjónustu sem er fyrir langveik eða fötluð börn. Í öllum tilvikum hefur starfsfólk styrktarfélagsins sinnt sinni þjónustu af stakri prýði.“

Reykjavíkurborg er stærsti einstaki samningsaðili styrktarfélagsins Áss en borgin kaupir um 70% þjónustunnar sem félagið veitir. Í því ljósi segir Þóra Þórisdóttir, framkvæmdastjóri Áss, endurnýjun samningsins mikilvæga. „Samningurinn skiptir máli fyrir þá sem eru hjá okkur í búsetuþjónustu í Reykjavík og ekki síður þá er sækja til okkar vinnu í Vinnu og virkni í hverri viku. Hann tryggir fólki  sem til okkar sækir þjónustu og vinnu áframhald á daglegum viðfangsefnum sínum.“

Heildarfjárhæð nýja samningsins er 1.605.410.000 krónur á ársgrundvelli. Upphæðirnar skiptast þannig að 747.610.000 krónur eru vegna búsetuþjónustu, 819.550.000 krónur vegna vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu og 38.250.000 króna vegna sérhæfðrar leikskólaþjónustu.