Samningur við SÁÁ styður þjónustu við börn og fjölskyldur

Velferð

""

SÁÁ veitir notendum velferðarþjónustu sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda og fjölskyldum þeirra ráðgjöf, sálfræðiaðstoð fyrir börn og aðra þjónustu á grundvelli samnings við velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Áframhaldandi samstarf er tryggt með endurnýjuðum samningi og stendur til að þróa það enn frekar. 

Það voru þau Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, og Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sem undirrituðu samninginn fyrr í vikunni. Samstarf á grundvelli samnings hefur verið  allt frá árinu 2008. Samningurinn sem nú var undirritaður er til þriggja ára og hljóðar upp á 20 milljónir króna á ári. 

Sérstök áhersla er lögð á börn, barnafjölskyldur og ungt fólk í samningnum en markmið hans er að auka forvarnir og efla samstarf milli Reykjavíkurborgar og SÁÁ. Á grundvelli samningsins geta notendur velferðarþjónustu fengið forgang í viðtöl hjá SÁÁ, tekið þátt í hópastarfi eða námskeiðum og fengið tilvísun í meðferð á göngudeild SÁÁ. Þar er börnum fólks með áfengis- eða fíknivanda jafnframt veitt sálfræðiviðtöl. Þá eiga SÁÁ og velferðarsvið í samstarfi í gegnum átaksverkefni, svo sem Grettistak sem er ætlaði fólki sem lokið hefur meðferð. Markmið samningsins er jafnframt að auka gagnkvæma fræðslu, milli starfsfólks SÁÁ annars vegar og velferðarsviðs hins vegar. 

Við undirritun samningsins sagðist Einar sjá fyrir sér að samstarf milli SÁÁ og velferðarsviðs ætti eftir að aukast enn frekar. „Samstarf okkar hefur þróast í gegnum tíðina og verður alltaf þýðingarmeira, bæði fyrir SÁÁ og borgina. Við höfum átt í góðu og löngu samstarfi og fögnum áframhaldandi samningi. Það er mikilvægt að fólk fái heilsteypta þjónustu og geti leitað hennar á sem hagkvæmastan og hraðastan hátt,“ segir Einar.