Samkeppni um nýjan samþættan leik- og grunnskóla í Vogabyggð
Skóli og frístund Skipulagsmál
Hugmyndasamkeppni verður haldin um nýjan samþættan leik- og grunnskóla í Vogabyggð en þar er geysimikil uppbygging íbúða þessi misserin.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum 3. júní að efna til opinnar hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla, með aðstöðu fyrir frístundastarf, í Vogahverfi. Þá er innan forsögn samkeppninnar gert ráð fyrir nýrri göngu- og hjólabrú í hverfinu. Samkeppnin er haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og er áætlað að niðurstöður liggi fyrir í byrjun næsta árs.
Í Vogabyggð er nú að rísa íbúðabyggð fyrir allt að 1200-1500 íbúðir og er ný skólabygging með aðstöðu fyrir starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar hluti af uppbyggingu hverfisins. Gert er ráð fyrir að nýtt skólahúsnæði með aðstöðu fyrir frístundastarf verði byggt í þremur áföngum eftir því sem að íbúum í Vogabyggð fjölgar. Nú er áætlað að allt að 600 nemendur á leik- og grunnskólastigi muni eiga heimili í hverfinu.
Nýr skóli verður staðsettur á Fleyvangi (Vogabyggð 5). Ný göngu- og hjólabrú yfir Ketilbjarnarsíki mun tengja börn og aðra íbúa Vogabyggðar við nýja byggingu, útivistarsvæðið á Fleyvangi og aðra borgarhluta. Brúin verður helsta samgönguleiðin og jafnframt nýtt kennileiti í borgarlandslaginu.
Staðsetningin á nýjum skóla og öðrum mannvirkjum er einstakt í borginni með sjávarströnd til beggja hliða, nálægð við smábátahöfnina, Elliðaárnar og útivistarsvæði Elliðaárósa og Elliðaárdals.
Áætluð heildarstærð byggingarinnar er um 7.200 fermetrar.