Reykvíkingar tóku því fagnandi að geta notað hverfishleðslurnar fyrir rafbíla aftur. Notkunin hefur verið góð á þeim síðustu daga eftir að þær voru opnaðar á ný.
Uppsetning hleðslustöðva í hverfum Reykjavíkur er í samræmi við markmið borgarinnar á sviði loftslagsmála og ætlað að hvetja til orkuskipta. Fjöldi rafbíla hefur aukist mikið á undanförnum árum og eru hverfishleðslurnar ætlaðar til að mæta þörfum þeirra sem ekki geta hlaðið við heimili sín.
300 tillögur hafa borist
Reykvíkingar virðast taka vel í orkuskiptin en nú þegar hafa borist um hátt í 300 tillögur að staðsetningum á nýjum hverfishleðslum. Leitað var til íbúa varðandi tillögur að staðsetningum en Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur ætla að setja upp hleðslustöðvar á borgarlandi á 60 stöðum í Reykjavík á næstu þremur árum.
Hvar vilt þú hafa hleðslustöð? Hér er hægt að skrá niður óskastaðsetningar.
Spurningar sem settar eru fram eru til að glöggva sig á þörf fyrir hleðslustöðvar en íbúar geta skráð óskir sínar án þess að svara spurningunum. Við val á staðsetningum verður meðal annars horft til aðgengis að dreifikerfi rafmagns og mögulegrar nýtingar stöðvanna.